Franska lögreglan rannsakar miðasvikin

Íslendingar í stúkunni á Stade de France í París í …
Íslendingar í stúkunni á Stade de France í París í gær. AFP

Enginn var handtekinn í tengslum við uppákomu í París í gær þegar tugir Íslendinga fengu ekki miða á leik Íslands og Frakklands þrátt fyrir að hafa greitt fyrir þá. Þetta segir fulltrúi ríkislögreglustjóra í París sem starfað hefur í kringum Evrópumótið í knattspyrnu. 

„Á þessu stigi getum við voða lítið sagt annað en að komið hafi upp mál þar sem einhver hópur af Íslendingum fékk ekki afhenta þá miða sem þeir töldu sig hafa keypt og komust því ekki á leikinn,“ segir Tjörvi Einarsson, lögreglufulltrúi hjá ríkislögreglustjóra í samtali við mbl.is. 

Frétt mbl.is: Voru svikin um miða á leikinn

Málið er sem stendur í skoðun hjá frönsku lögreglunni. Eins og mbl.is sagði frá í gærkvöldi gætti mikillar reiði á Twitter og í Face­book-hópn­um „Ferðagrúppa fyr­ir EM 2016“ en þar seg­ist fólk hafa verið svikið um miða af manni sem hafði milli­göngu um kaup­in.

Björn Steinbekk er maðurinn sem um ræðir, en hann sagði í viðtali við RÚV í morgun að hann hafi verið svikinn af miðasölustjóra hjá Knattspyrnusambandi Evrópu. Hann hafnaði því að miðarnir sem hann seldi hafi verið falsaðir eða fengnir með ólöglegum leiðum. 

„Við erum að fela okkar lögmanni að vinna að því að hefja endurgreiðsluferli sem fengu ekki miða. Við erum að vinna í því að senda Knattspyrnusambandi Íslands greinargerð um þetta mál. Við höfum verið svikinn af miðasölustjóra UEFA og við munum leggja fram tölvupósta um það í dag. Þar liggur þessi hundur grafinn. Þetta er ömurlegt mál og dagurinn í dag fer í að losa um það sem gerðist,“ sagði Björn í samtali við RÚV.

Sam­kvæmt frétt á vef RÚV var Kristján Atli Bald­urs­son meðal þeirra sem fengu ekki miða en hann keypti 100 aðgöngumiða af Birni og greiddi fyr­ir 5,3 millj­ón­ir króna. „Ég titra bara,“ hafði RÚV eft­ir Kristjáni, sem skipu­lagði ferð með leiguflugi frá Ak­ur­eyri til Frakk­lands.

Tjörvi segir ekki liggja fyrir hve margir sátu uppi miðalausir, en það geti verið yfir 70 manns. Aðspurður um það hvert framhaldið í málinu sé segir hann: „Ef þetta eru svik, sem við getum ekki fullyrt um á þessu stigi, þá þarf að skoða hvar lögsagan liggur í málinu; hvort brotið sé framið á Íslandi eða hvort brotið sé framið í Frakklandi. En það er eitthvað sem við getum ekki svarað fyrr en við vitum meira um málið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert