Miðar sem athafnamaðurinn Björn Steinbekk seldi stuðningsmönnum íslenska landsliðsins á leikinn gegn Frakklandi og komust ekki til skila, þrátt fyrir að greitt hefði verið fyrir þá, verða endurgreiddir. Þetta staðfestir Björn í samtali við mbl.is.
Eins og fjallað hefur verið um sátu tugir Íslendinga eftir með sárt ennið í París í gær þegar þeir fengu ekki miðana sína afhenta. Björn hafði selt nokkur hundruð miða á leikinn, sem fram fór á Stade de France, en hluti þeirra sem keypt höfðu miða af honum komst aldrei inn á leikvanginn.
„Við höfum unnið hart að því í dag að koma þessum málum í ferli til að sýna fólki að við berum fulla ábyrgð á því ástandi sem er komið upp,“ segir Björn. Lögmannsstofan Forum lögmenn er nú komin í málið og mun annast samskipti varðandi kröfur vegna endurgreiðslu á miðum.
Þá hefur lögmannsstofan tekið við fjárhæð sem Björn segist telja að samsvari þeim miðafjölda sem ekki fékkst afhentur, til varðveislu á meðan málið verður leyst.
Fyrr í dag sagði fjölmiðlafulltrúi UEFA, Knattspyrnusambands Evrópu, að miðarnir hefðu ekki komið frá sambandinu. „Við höfum ítrekað brýnt fyrir almenningi að einungis sé hægt að kaupa miða á vef okkar, UEFA.com. Miðar sem eru ekki keyptir þaðan eru falsaðir eða ógildir,“ sagði hann.
Aðdragandi málsins er sá að Björn fékk tölvupóst sem undirritaður var af „Nicole“ sem sagðist vera framkvæmdastjóri miðasölu hjá UEFA. Í tölvupóstinum var hvorki eftirnafn né netfang hjá henni, og aðspurður segir fjölmiðlafulltrúi UEFA að engin Nicole starfi við miðasöluna. Björn vinnur þó að því núna að komast til botns í málinu og ná í þá sem seldu honum miðana.
Þá kemur fram í póstinum að milligöngumaður Björns sé Gaetano Marotta, framkvæmdastjóri Gama sport. Mbl.is reyndi að ná sambandi við Marotta í dag án árangurs.
Ólafur Árni Hall og kærasta hans, Erla Dögg Aðalsteinsdóttir, voru á meðal þeirra sem lentu í miðasvikunum, en Ólafur sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að um hafi verið að ræða „svik, skipulagsleysi og barnaskap“.
Parið keypti miða í gegnum vefsíðuna netmidi.is af Kristjáni Atla Baldurssyni, en hann hafði keypt 100 miða og skipulagt ferð með leiguflugi frá Akureyri til Frakklands. Miðana keypti hann af Birni Steinbekk og borgaði fyrir þá 5,3 milljónir króna.
Frétt mbl.is: Miðarnir komu ekki frá UEFA
Frétt mbl.is: „Svik, skipulagsleysi og barnaskapur“