„Það sem byrjaði sem frábær ferð endaði bara þannig að það fór allt til fjandans,“ segir Ólafur Árni Hall en hann og kærasta hans, Erla Dögg Aðalsteinsdóttir, voru á meðal þeirra sem lentu í miðasvikum fyrir leik Íslands og Frakklands í París í gær.
Parið keypti miða í gegnum vefsíðuna netmidi.is af Kristjáni Atla Baldurssyni, en hann hafði keypt 100 miða og skipulagt ferð með leiguflugi frá Akureyri til Frakklands. Miðana keypti hann af Birni Steinbekk, sem hafði milligöngu um miða, og borgað fyrir þá 5,3 milljónir króna.
„Við vorum búin að vera að skoða alla möguleika og á þessum tíma var erfitt að finna miða sem maður var 100% öruggur með og flug voru búin að hækka mikið og voru mörg með millilendingum. Ég er fótbrotinn og á hækjum svo ég réttlætti það að fara þannig að þetta var beint flug út og öruggur miði á leikinn,“ segir Ólafur en þau Erla borguðu 179 þúsund á mann fyrir flugið og miðann.
Ólafur segir að strax hafi farið að myndast ólga í hópnum þegar komið var upp á hótel, en þá hafði enginn fengið upplýsingar um miðana á leikinn né flugið heim. Fyrst hafi staðið til að fólk gæti sótt miðana á laugardeginum, en fljótlega kom í ljós að svo yrði ekki.
Síðar fengu þau upplýsingar um að þau gætu sótt miðana á O‘Sullivans barinn í rauða hverfinu í París klukkan 14 á sunnudeginum, en leikurinn hófst klukkan 21 að staðartíma. Ólafur segist hafa fengið upplýsingar frá Kristjáni um að einn miðakaupenda myndi afhenda þeim miðana á staðnum. „Það var þá fyrst sem mér varð ljóst að það væri enginn starfsmaður á vegum þessarar ferðar sem var úti. Þetta var bara maður á Akureyri sem fékk hugmynd sem ekki var hægt að framkvæma.“
Ólafur segir að ekkert hafi orðið úr því að fólk gæti sótt miða á O‘Sullivans og mikil upplausn hafi myndast þar sem leikurinn nálgaðist og fólk var orðið órólegt. Staðsetning miðanna breyttist tvisvar sinnum í viðbót og á endanum var fólki sagt að koma að hóteli við Stade de France. Þar myndu miðarnir bíða í umslögum.
„Þetta hljómaði mjög skipulagt en þegar við komum á svæðið var búin að myndast hrúga í kringum lítið partítjald og þar stóð eitthvað fólk í miðjunni sem Björn Steinbekk hafði látið fá tösku af miðum og í panikki hlaupið í burtu. Allt í einu situr þetta fólk sem var á leiðinni á leikinn uppi með tösku fulla af miðum og yfir tvö hundruð Íslendinga brjálaða yfir að vera ekki komnir með miðana sína,“ segir Ólafur, en á þessum tímapunkti voru um 40 mínútur í leikinn.
„Svo fer verst leikstýrða leikrit sem ég hef séð í gang þegar það átti að dreifa miðunum. Það var algjört kaos og skipulagsleysi,“ segir Ólafur og bætir við að Björn Steinbekk hafi hvergi verið að sjá, né nokkurn á vegum netmidi.is. Síðar hafi hann heyrt að á þessum tímapunkti hafi Björn farið að hlaupa á milli manna fyrir utan leikvanginn til að reyna að kaupa fleiri miða.
Eftir að fyrstu stuðningsmennirnir fóru að fá miðana sína og vonir voru uppi um að málið myndi leysast, segir Ólafur að ekki hafi betra tekið við. „Það var ein kona sem var með þrjá miða og hún fór að hliðinu en kom til baka fimm mínútum seinna þar sem sagt hafði verið við hana að þetta væru stolnir miðar og hún fengi ekki að fara inn,“ segir Ólafur. „Þá fór ennþá meira panikk af stað þar sem fólk óttaðist að allir miðarnir væru stolnir. Það var mikill múgæsingur og lá við slagsmálum. Reiðin var mjög mikil.“
Ólafur segir enn aðra hafa lent í því að fá afhent umslag með nafni sínu úr bakpokanum, en ekkert hafi verið inni í umslaginu. „Þá var maður nánast búinn að gefa upp alla von um að maður væri að fara á þennan leik,“ segir hann.
Stuttu síðar hafi Björn komið aftur að staðnum þar sem hópurinn var, og þá segir Ólafur að allt hafi orðið vitlaust. „Sumir ætluðu að vaða í hann. Það var verið að hóta honum lífláti þar sem hann var bara búinn að eyðileggja ferðina fyrir öllu þessu fólki.“ Við þetta hafi franska lögreglan stigið inn í og dregið Björn frá hópnum.
Tugir manna hafi hlaupið á eftir lögreglu og reynt að kýla til Björns, en geðshræringin var orðin gríðarleg á þessum tímapunkti. Þjóðsöngurinn ómaði inni á leikvanginum en um tvö hundruð Íslendingar stóðu enn fyrir utan miðalausir.
Meðal þeirra sem sátu eftir með sárt ennið voru fjölskyldur, og segir Ólafur að mikil sorg hafi verið hjá ungum sem öldnum sem ekki fengu miðana sína. „Þarna voru krakkar sem voru búnir að bíða eftir að sjá hetjurnar sínar en svo er bara einhver auli útí bæ sem var búinn að lofa þeim miðum sem stendur ekki við sitt,“ segir hann.
Eftir að Björn hafði verið dreginn í burtu af lögreglu var ákveðið að dreifa miðunum sem eftir voru til að koma fleiri Íslendingum inn á völlinn. „Ég náði þá að fá miða fyrir mig og kærustuna mína og þegar við komum inn vorum við í hólfum I og G. Það er gjörsamlega hinum megin á vellinum en við náðum að tala við sjálfboðaliða frá UEFA sem leyfðu okkur að fara saman inn. Við sátum með öllum Frökkunum sem var alveg fáránlegt þar sem það var búið að lofa okkur miðum hjá öllum Íslendingunum.“
Þegar Ólafur og Erla komu inn á völlinn voru 25 mínútur búnar af leiknum, og Frakkar búnir að skora tvö mörk. „Maður kom pirraður inn og þetta var allt ömurlegt svo maður náði ekki að njóta sín til að byrja með en svo ákváðum við bara að hætta að pæla í þessu á meðan leikurinn var í gangi,“ segir hann. Síðar hafi þau komist að því að um 50-150 Íslendingar hafi ekki verið jafn heppin og þau að fá miða á leikinn. „Þetta eru svik, skipulagsleysi og barnaskapur.“
Ekki nóg með þetta heldur hafi hópurinn fengið upplýsingar um það að flugið væri klukkan 6:40 morguninn eftir, en ekki 20 um kvöldið eins og gengið hafi verið út frá í fyrstu. „Við höfðum verið ótrúlega sátt að fá aukadag til að njóta, en svo var það tekið frá okkur,“ segir Ólafur og bætir við að þessar upplýsingar hafi augljóslega ekki komist til skila til allra þar sem að minnsta kosti tíu sæti voru laus í vélinni heim, þrátt fyrir að ferðin hafi verið yfirbókuð.
Málið er sem stendur í skoðun hjá frönsku lögreglunni, en mikillar reiði hefur gætt á samfélagsmiðlum vegna málsins.
Björn Steinbekk sagði í viðtali við RÚV í morgun að hann hafi verið svikinn af miðasölustjóra hjá Knattspyrnusambandi Evrópu. Hann hafnaði því að miðarnir sem hann seldi hafi verið falsaðir eða fengnir með ólöglegum leiðum.
„Við erum að fela okkar lögmanni að vinna að því að hefja endurgreiðsluferli sem fengu ekki miða. Við erum að vinna í því að senda Knattspyrnusambandi Íslands greinargerð um þetta mál. Við höfum verið svikinn af miðasölustjóra UEFA og við munum leggja fram tölvupósta um það í dag. Þar liggur þessi hundur grafinn. Þetta er ömurlegt mál og dagurinn í dag fer í að losa um það sem gerðist,“ sagði Björn í samtali við RÚV.