Íhuga málsókn á hendur Birni Steinbekk

Björn Steinbekk.
Björn Steinbekk.

Fjöldi fólks hefur haft samband við lögfræðinga undanfarinn sólarhring til að leita réttar síns eftir að hafa keypt miða af Birni Steinbekk á leik Íslands og Frakklands í París á sunnudag. Eins og fram hefur komið komust margir þeirra sem greitt höfðu fyrir miðana aldrei inn á leikvanginn. 

Nú hefur verið stofnaður lokaður hópur á Facebook þar sem undirbúin er málsókn gegn Birni, en samkvæmt heimildum mbl.is er málið þó ekki komið formlega inn á borð neinnar lögmannsstofu. Er hópurinn því á þessu stigi umræðuvettvangur þar sem meintir tjónþolar ræða saman og ákveða í sameiningu næstu skref. Ekki er því ljóst hvort málsókn verður að veruleika á þessu stigi, en fjölmargir vilja þó leita réttar síns.

Ekki ósennilegt að um refsiverða háttsemi sé að ræða

Að sögn lögmanns, sem mbl.is ræddi við og hópurinn hefur haft samband við, er ekki ósennilegt að um refsiverða háttsemi sé að ræða. Getur athæfi Björns því hugsanlega fallið undir fjársvik í skilningi hegningarlaga. Margir hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni eftir viðskipti sín við Björn auk þess sem viðskiptavinir hans hafi margir hverjir orðið fyrir tilfinningalegum óþægindum og sorg. Þá hafi fólk orðið fyrir öðru tjóni sem felst til dæmis í ferðakostnaði eða vinnutapi.

Sé um fjársvik og blekkingar í viðskiptum að ræða eigi tjónþolar þann kost að sækja bætur fyrir dómstólum, eins og lög kveði á um. Hugsanlegt sé að meintir tjónþolar sameinist í málsókn með svokallaðri samlagsaðild, en málið sé þó enn á frumstigi. Því sé ekki tímabært að leggja dóm á mál sem eigi eftir að leiða til lykta með réttum leiðum. 

Íslendingar í stúkunni á Stade de France í París.
Íslendingar í stúkunni á Stade de France í París. AFP

Mun endurgreiða miðana

Björn sagði í samtali við mbl.is í gær að miðar sem komust ekki til skila yrðu endurgreiddir. „Við höf­um unnið hart að því í dag að koma þess­um mál­um í ferli til að sýna fólki að við ber­um fulla ábyrgð á því ástandi sem er komið upp,“ sagði Björn. Lög­manns­stof­an For­um lög­menn er nú kom­in í málið og mun ann­ast sam­skipti varðandi kröf­ur vegna end­ur­greiðslu á miðum.

Þeir sem eiga rétt á endurgreiðslu geta haft samband við Forum lögmenn, en stofan hefur tekið við fjár­hæð, sem Björn seg­ist telja að sam­svari andvirði þess fjölda miða sem ekki fékkst af­hent­ur, til varðveislu á meðan málið verður leyst. 

Eins og fjallað hefur verið um keypti Björn nokkur hundruð miða í þeirri trú að hann væri að kaupa af UEFA og seldi þá áfram. Fjöl­miðlafull­trúi UEFA, Knatt­spyrnu­sam­bands Evr­ópu, sagði aftur á móti í gær að miðarn­ir sem Björn keypti hefðu ekki komið frá sam­band­inu. „Við höf­um ít­rekað brýnt fyr­ir al­menn­ingi að ein­ung­is sé hægt að kaupa miða á vef okk­ar, UEFA.com. Miðar sem eru ekki keypt­ir þaðan eru falsaðir eða ógild­ir,“ sagði hann.

mbl.is hefur í dag reynt að ná í Björn Steinbekk og lögmann hans, án árangurs.

Frétt mbl.is: Hver er Björn Steinbekk?

Frétt mbl.is: Mun end­ur­greiða miðana

Frétt mbl.is: Miðarn­ir komu ekki frá UEFA

Frétt mbl.is: „Svik, skipu­lags­leysi og barna­skap­ur“

Frétt mbl.is: Franska lög­regl­an rann­sak­ar miðasvik­in

Frétt mbl.is: Voru svik­in um miða á leik­inn

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert