Sakborningar opna vef um Al Thani-málið

Sig­urður Ein­ars­son, Hreiðar Már Sigurðsson, Magnús Guðmunds­son og Ólaf­ur Ólafs­son.
Sig­urður Ein­ars­son, Hreiðar Már Sigurðsson, Magnús Guðmunds­son og Ólaf­ur Ólafs­son. mbl.is/Kristinn

Sak­born­ing­arn­ir í Al Thani-mál­inu svo­nefnda hafa í hyggju að opna nýj­an vef þar sem finna má gögn sem tek­in hafa verið sam­an um málið. Vef­ur­inn mun bera heitið dagsljos.is. Freyr Ein­ars­son, fyrr­ver­andi frétta­stjóri hjá 365, mun halda utan um vef­inn.

Kjarn­inn greindi frá mál­inu í dag.

Sak­born­ing­arn­ir voru sak­felld­ir fyr­ir umboðssvik og markaðsmis­notk­un af Hæsta­rétti í fe­brú­ar í fyrra. Hreiðar Már Sig­urðsson, fyrr­ver­andi for­stjóri Kaupþings, var dæmd­ur í fimm og hálfs árs fang­elsi, Sig­urður Ein­ars­son, fyrr­ver­andi stjórn­ar­formaður bank­ans, í fjög­urra ára fang­elsi, Ólaf­ur Ólafs­son, sem var einn stærsti hlut­hafi bank­ans, í fjög­urra og hálfs árs fang­elsi og Magnús Guðmunds­son, fyrr­ver­andi for­stjóri Kaupþings í Lúx­em­borg, sömu­leiðis í fjög­urra og hálfs árs fang­elsi.

Þeir kærðu málið til Mann­rétt­inda­dóm­stóls Evr­ópu sem hef­ur nú krafið ís­lensk stjórn­völd svara við fjór­um efn­is­leg­um spurn­ing­um um málsmeðferð þess. Stjórn­völd fá frest til 10. októ­ber til þess að skýra mál sitt. Að því loknu tek­ur dóm­stóll­inn af­stöðu til þess hvort málið verði tekið til efn­is­legr­ar meðferðar og réttað í því.

Frá aðalmeðferð Al Thani-málsins í héraði.
Frá aðalmeðferð Al Thani-máls­ins í héraði. mbl.is/​Eggert

Frétt­ir mis­rétt­ar og marg­ar rang­ar

Freyr seg­ir í sam­tali við mbl.is að vef­ur­inn verði nokk­urs kon­ar gagna­grunn­ur úr Al Thani-mál­inu, þannig að fólk geti kynnt sér málið og öll gögn sem tengj­ast því til hlít­ar. „Við telj­um og höf­um kom­ist að því að frétt­ir sem hafa borist af mál­inu í gegn­um tíðina hafa verið mis­rétt­ar og marg­ar rang­ar,“ seg­ir hann.

Gagna­öfl­un fyr­ir vef­inn standi nú yfir og komi að miklu leyti til í kjöl­far þess að Mann­rétt­inda­dóm­stóll Evr­ópu tók málið til skoðunar. Hann seg­ist jafn­framt von­ast til þess að öll gögn máls­ins komi fyrr en síðar fram í dags­ljósið. Ljóst sé að sak­born­ing­arn­ir hafi ekki fengið að sjá öll gögn sem liggja fyr­ir í mál­inu.

Freyr seg­ir ekki hafa verið ákveðið hvenær vef­ur­inn verði opnaður, en það verði vænt­an­lega gert með haust­inu.

Þá hef­ur Face­book-síðan Dags­ljós jafn­framt verið stofnuð, en þar eru frétt­ir sem tengj­ast Al Thani-mál­inu end­ur­birt­ar. Þar seg­ir enn frem­ur: „Dags­ljós er sam­starfs­verk­efni áhuga­manna um rétt­læti í svo­kölluðu Al Thani-máli sem nú er til rann­sókn­ar hjá Mann­rétt­inda­dóm­stóli Evr­ópu.“

Kaupþing.
Kaupþing. mbl.is/Ó​mar
mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert