Sakborningarnir í Al Thani-málinu svonefnda hafa í hyggju að opna nýjan vef þar sem finna má gögn sem tekin hafa verið saman um málið. Vefurinn mun bera heitið dagsljos.is. Freyr Einarsson, fyrrverandi fréttastjóri hjá 365, mun halda utan um vefinn.
Kjarninn greindi frá málinu í dag.
Sakborningarnir voru sakfelldir fyrir umboðssvik og markaðsmisnotkun af Hæstarétti í febrúar í fyrra. Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, var dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi, Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður bankans, í fjögurra ára fangelsi, Ólafur Ólafsson, sem var einn stærsti hluthafi bankans, í fjögurra og hálfs árs fangelsi og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, sömuleiðis í fjögurra og hálfs árs fangelsi.
Þeir kærðu málið til Mannréttindadómstóls Evrópu sem hefur nú krafið íslensk stjórnvöld svara við fjórum efnislegum spurningum um málsmeðferð þess. Stjórnvöld fá frest til 10. október til þess að skýra mál sitt. Að því loknu tekur dómstóllinn afstöðu til þess hvort málið verði tekið til efnislegrar meðferðar og réttað í því.
Freyr segir í samtali við mbl.is að vefurinn verði nokkurs konar gagnagrunnur úr Al Thani-málinu, þannig að fólk geti kynnt sér málið og öll gögn sem tengjast því til hlítar. „Við teljum og höfum komist að því að fréttir sem hafa borist af málinu í gegnum tíðina hafa verið misréttar og margar rangar,“ segir hann.
Gagnaöflun fyrir vefinn standi nú yfir og komi að miklu leyti til í kjölfar þess að Mannréttindadómstóll Evrópu tók málið til skoðunar. Hann segist jafnframt vonast til þess að öll gögn málsins komi fyrr en síðar fram í dagsljósið. Ljóst sé að sakborningarnir hafi ekki fengið að sjá öll gögn sem liggja fyrir í málinu.
Freyr segir ekki hafa verið ákveðið hvenær vefurinn verði opnaður, en það verði væntanlega gert með haustinu.
Þá hefur Facebook-síðan Dagsljós jafnframt verið stofnuð, en þar eru fréttir sem tengjast Al Thani-málinu endurbirtar. Þar segir enn fremur: „Dagsljós er samstarfsverkefni áhugamanna um réttlæti í svokölluðu Al Thani-máli sem nú er til rannsóknar hjá Mannréttindadómstóli Evrópu.“