Brennuvargurinn talinn ósakhæfur

Stórtjón varð í eldsvoðanum við Grettisgötu .
Stórtjón varð í eldsvoðanum við Grettisgötu . mbl.is/Golli

Héraðsdómur Reykjavíkur sakfelldi í dag bræður á fertugsaldri fyrir almannahættubrot vegna bruna í iðnaðar­húsi á Grett­is­götu í mars á þessu ári.

Annar bróðirinn var sakfelldur fyrir brennu en hann var hins vegar talinn ósakhæfur og því sýknaður af kröfu ákæruvaldsins um refsingu. Var honum gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun.

Hinn maðurinn var sakfelldur fyrir að láta hjá líða að gera það sem í hans valdi stóð til þess að vara við eða afstýra eldsvoðanum. Var hann dæmdur í sex mánaða fangelsi.

Mánudagskvöldið 7. mars barst lögreglu tilkynning um að reyk legði frá húsinu á Grettisgötu 87 í Reykjavík. Þegar lögreglumenn komu á vettvang sást eldur loga út um glugga austan megin í húsinu og lá mikill reykur yfir hverfinu.

Húsið sem um ræðir er iðnaðarhúsnæði, en í því voru tvö bifreiðaverkstæði, líkamsræktarstöð, vinnustofa og íbúð listmálara, auk bifreiðageymslu í kjallara. Rætt var við vitni á vettvangi sem kváðust hafa verið við vinnu á bifreiðaverkstæði vestan megin í húsinu þegar þeir urðu eldsins varir. Þá gáfu tveir erlendir ferðamenn sig fram við lögreglu og kváðust hafa séð til tveggja manna sem gengu fram hjá brennandi húsinu og hefði virst sem bruninn kæmi þeim lítið á óvart.

Meðal gagna málsins er ljósmynd sem vitnin tóku af húsinu og mönnunum úr fjarlægð. Þá liggur fyrir myndbandsupptaka úr öryggismyndavél utanríkisráðuneytisins við Rauðarárstíg, þar sem sjá má tvo menn ganga fram hjá brennandi húsinu.

Kveikti í slæðu

Annar mannanna var ákærður fyrir brennu og honum gert að sök að hafa kveikt í slæðu sem var á stól í herbergi hans á Grettisgötu 87, hent stólnum á dýnu og skilið brennandi dýnuna eftir inni í herberginu og valdið þannig eldsvoða, sem hafði í för með sér almannahættu og eignatjón en eldurinn magnaðist upp og hafði nánast borist um allt húsnæðið er slökkvistarf hófst, með þeim afleiðingum að húsið eyðilagðist, ásamt þeim munum og tækjum sem voru innandyra.

Maðurinn játaði fyrir dómi. Í dómnum kemur hins vegar fram að hann sé haldinn geðklofa og fylgi miklar ranghugmyndir sjúkdómi hans. Þá glími hann við amfetamínfíkn sem hamli sjúkdómsmeðferð hans.

Ófær um að stjórna gerðum sínum

Hann hafi tvívegis orðið uppvís að íkveikju og er sú hegðun rakin til ranghugmynda sem hann hafi verið haldinn á verknaðarstundu. Telur matsmaður mjög líklegt að hann sýni áfram af sér íkveikjuhegðun fái hann ekki viðeigandi meðferð í því skyni að vinna bug á geðrofseinkennum og ranghugmyndum.

Var niðurstaða dómsins sú að maðurinn hafi verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum á verknaðarstundu. Bar því að sýkna hann. Var honum þess í stað gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun samkvæmt 62. gr. almennra hegningarlaga.

Auk þess var hann sýknaður af skaðabótakröfu Tryggingamiðstöðvarinnar.

Húsið skemmdist mikið.
Húsið skemmdist mikið. mbl.is/Eggert

Reyndi ekki að slökkva eldinn

Hinn maðurinn var ákærður fyrir að hafa látið hjá líða að gera það sem í hans valdi stóð, til þess að vara við eða afstýra eldsvoðanum. Hann hafi hvorki gert tilraunir til að slökkva eldinn né tilkynna hann til lögreglu eða slökkviliðs né kannaði hvort einhver væri inni í húsnæðinu þegar hann yfirgaf vettvang ásamt hinum manninum. Þá hóf hann ekki virkar björgunaraðgerðir til björgunar verðmætum eða mannslífum.

Maðurinn neitaði sök, en viðurkenndi þó að hafa hvorki reynt að slökkva eldinn né tilkynna hann til lögreglu eða slökkviliðs né kannað hvort einhver væri inni í húsnæðinu áður en hann yfirgaf það.

Vankaður eftir amfetamínneyslu

Í vitnisburði Tómasar Zoëga geðlæknis fyrir dóminum kom fram að gögn málsins væru misvísandi um það hvort maðurinn hefði haft geðrofseinkenni í umrætt sinn. Niðurstaða matsins hefði þó verið sú að jafnvel þótt slík einkenni hefðu verið til staðar hefðu þau ekki ráðið gerðum hans á þeim tíma. Það hefði fyrst og fremst verið samband þeirra bræðra sem gerði að verkum að hann aðhafðist ekki, auk þess sem hann hefði verið vankaður eftir amfetamínneyslu undanfarinna daga.

Að mati dómsins samrýmist sú niðurstaða framburði mannsins við aðalmeðferð málsins, en hann gaf þær skýringar á athafnaleysi sínu að bróðir hans hefði bannað honum að gera viðvart um eldsvoðann og að hann hefði ekki viljað koma upp um verknað bróðurins. 

Var niðurstaðan sú að maðurinn var talinn sakhæfur og fundinn sekur.

Auk sex mánaða fangelsisdóms var honum gert að greiða Tryggingamiðstöðinni 12.596.852 krónur, ásamt vöxtum, og 200.000 krónur í málskostnað.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert