„Menn eru í góðum hug að vilja leysa úr þessu,“ segir Þorsteinn Einarsson, lögmaður hjá Forum lögmönnum, en hann heldur utan um mál vegna endurgreiðslu á miðum sem Björn Steinbekk seldi á leik Íslands og Frakklands í París á sunnudag.
Að sögn Þorsteins hafa engir miðar verið endurgreiddir ennþá, en verið sé að vinna í því að taka saman kröfur þeirra sem eigi rétt á endurgreiðslu. „Það liggur ekki alveg fyrir hversu mikill fjöldi það er en vinnan núna felst meðal annars í því,“ segir hann. „Vonandi í framhaldinu verður hægt að ganga frá þessum greiðslum.“
Eins og fjallað hefur verið um sátu tugir Íslendinga eftir með sárt ennið þegar þeir fengu ekki miðana sína afhenta. Björn hafði selt nokkur hundruð miða á leikinn, sem fram fór á Stade de France, en hluti þeirra sem keypt höfðu miða af honum komst aldrei inn á leikvanginn.
Björn sagði í samtali við mbl.is á mánudag að miðar sem komust ekki til skila yrðu endurgreiddir. „Við höfum unnið hart að því í dag að koma þessum málum í ferli til að sýna fólki að við berum fulla ábyrgð á því ástandi sem er komið upp,“ sagði Björn.
Þeir sem eiga rétt á endurgreiðslu geta haft samband við Forum lögmenn, en stofan hefur tekið við fjárhæð, sem Björn segist telja að samsvari andvirði þess fjölda miða sem ekki fékkst afhentur, til varðveislu á meðan málið verður leyst.
Eins og fjallað hefur verið um keypti Björn nokkur hundruð miða í þeirri trú að hann væri að kaupa af UEFA og seldi þá áfram. Fjölmiðlafulltrúi UEFA, Knattspyrnusambands Evrópu, sagði aftur á móti á mánudag að miðarnir sem Björn keypti hefðu ekki komið frá sambandinu. „Við höfum ítrekað brýnt fyrir almenningi að einungis sé hægt að kaupa miða á vef okkar, UEFA.com. Miðar sem eru ekki keyptir þaðan eru falsaðir eða ógildir,“ sagði hann.