Engir miðar endurgreiddir ennþá

Íslendingar eru stúkunni á Stade de France í París.
Íslendingar eru stúkunni á Stade de France í París. AFP

„Menn eru í góðum hug að vilja leysa úr þessu,“ segir Þorsteinn Einarsson, lögmaður hjá Forum lögmönnum, en hann heldur utan um mál vegna endurgreiðslu á miðum sem Björn Steinbekk seldi á leik Íslands og Frakklands í París á sunnudag.

Að sögn Þorsteins hafa engir miðar verið endurgreiddir ennþá, en verið sé að vinna í því að taka saman kröfur þeirra sem eigi rétt á endurgreiðslu. „Það liggur ekki alveg fyrir hversu mikill fjöldi það er en vinnan núna felst meðal annars í því,“ segir hann. „Vonandi í framhaldinu verður hægt að ganga frá þessum greiðslum.“

Eins og fjallað hef­ur verið um sátu tug­ir Íslend­inga eft­ir með sárt ennið þegar þeir fengu ekki miðana sína af­henta. Björn hafði selt nokk­ur hundruð miða á leik­inn, sem fram fór á Stade de France, en hluti þeirra sem keypt höfðu miða af hon­um komst aldrei inn á leik­vang­inn.

„Við berum fulla ábyrgð“

Björn sagði í sam­tali við mbl.is á mánudag að miðar sem komust ekki til skila yrðu end­ur­greidd­ir. „Við höf­um unnið hart að því í dag að koma þess­um mál­um í ferli til að sýna fólki að við ber­um fulla ábyrgð á því ástandi sem er komið upp,“ sagði Björn.

Þeir sem eiga rétt á end­ur­greiðslu geta haft sam­band við For­um lög­menn, en stof­an hefur tekið við fjár­hæð, sem Björn seg­ist telja að sam­svari and­virði þess fjölda miða sem ekki fékkst af­hent­ur, til varðveislu á meðan málið verður leyst. 

Eins og fjallað hef­ur verið um keypti Björn nokk­ur hundruð miða í þeirri trú að hann væri að kaupa af UEFA og seldi þá áfram. Fjöl­miðlafull­trúi UEFA, Knatt­spyrnu­sam­bands Evr­ópu, sagði aft­ur á móti á mánudag að miðarn­ir sem Björn keypti hefðu ekki komið frá sam­band­inu. „Við höf­um ít­rekað brýnt fyr­ir al­menn­ingi að ein­ung­is sé hægt að kaupa miða á vef okk­ar, UEFA.com. Miðar sem eru ekki keypt­ir þaðan eru falsaðir eða ógild­ir,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert