Fellur frá upptökukröfu á eignum Skúla

Fjárfestirinn Skúli Þorvaldsson.
Fjárfestirinn Skúli Þorvaldsson. mbl.is/Þórður Arnar

Ríkissaksóknari hefur ákveðið að falla frá upptökukröfu á eignum Skúla Þorvaldssonar fjárfestis og fjögurra erlendra félaga sem eru í eigu hans og systur hans. Um er að ræða fjármuni sem voru kyrrsettir að beiðni sérstaks saksóknara í júnímánuði árið 2011.

Andvirði eignanna var metið á um 37,5 milljónir evra þegar þær voru frystar 3. júní 2011. Það jafngildir rúmlega fimm milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins í dag. Lagt var hald á eignirnar í tengslum við rannsókn Marple-málsins svonefnda. Auk eigna Skúla og félaganna fjögurra var sömuleiðis lagt hald á eignir lúxemborgíska félagsins Marple, sem er í eigu Skúla.

Í ákæru sérstaks saksóknara í málinu var því haldið fram að fé hafi farið frá Kaupþingi hér á landi til Kaupþings í Lúx­em­borg og áfram til fé­lags­ins Marple í Lúx­em­borg á ár­un­um 2007 og 2008. Um fjárdrátt hafi verið að ræða og rekja mætti slóð hluta ávinningsins til fjögurra annarra erlendra félaga sem tengjast Skúla.

Snerist upptökukrafa ákæruvaldsins um að andvirði fjárhæðarinnar, sem kom úr sjóðum Kaupþings, yrði gert upptækt, óháð því hvort rekja mætti slóð allra fjármunanna til félaganna fjögurra.

Frá aðalmeðferð í Marple-málinu.
Frá aðalmeðferð í Marple-málinu. mbl.is/Eggert

Féllst ekki á upptökukröfuna

Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm sinn í Marple-málinu í október í fyrra. Var Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi banka­stjóri Kaupþings, dæmd­ur í sex mánaða fang­elsi, Magnús Guðmunds­son, fyrr­um banka­stjóri Kaupþings í Lúx­em­borg, í átján mánaða fang­elsi og Skúli, sem var einn stærsti lántaki bankans fyrir hrun hans, í sex mánaða fangelsi.

Dómurinn féllst á kröfu ákæruvaldsins um að gera upptækar allar eignir Marple, en hafnaði hins vegar því að gera upptækar eignir Skúla sjálfs og félaganna fjögurra, BM Trust S.A. SPF, Holt Holding S.A., SKLux S.A. og Legatum Ltd. Kom fram í dómnum að ekki hefði verið fullnægjandi lagaheimild fyrir hendi fyrir upptöku eignanna.

5,4 milljarðar gerðir upptækir

Á hlaupa­reikn­ingi og verðbréfa­reikn­ingi Legat­um voru kyrr­sett­ar eign­ir sem síðast voru metnar, í apríl 2014, á 24 millj­ónir evr­a og á reikn­ing­um BM Trust voru 14,6 millj­ónir evr­a. Á hlaupa­reikn­ingi Skúla voru 230 þúsund evr­ur og hjá Holt Hold­ing voru kyrr­sett­ar tæp­lega 1,1 millj­ón evr­a. Tæp­lega 10 þúsund evr­ur voru á reikn­ing­um SKLux.

Sam­tals námu eignirnar því, síðast þegar eigna­safnið var virt, að stærst­um hluta í apríl 2014, tæplega fjörutíu milljörðum evra. Það jafngildir um 5,4 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins í dag.

Frétt mbl.is: 962 milljónir af 6,65 milljörðum gerðar upptækar

Dómnum var áfrýjað til Hæstaréttar og hélt ríkissaksóknari upptökukröfunni til streitu.

Í kvöldfréttum RÚV í gær var hins vegar greint frá því að ríkissaksóknari hefði ákveðið að falla frá kröfunni, meðal annars með tilliti til rökstuðnings héraðsdóms. Hafa Skúli og systir hans því nú fengið eignir félaganna aftur til umráða, í fyrsta sinn eftir að þær voru frystar í júní 2011.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert