Reglur sveitarfélaganna um fasteignagjöld eru mjög mismunandi og endurspeglast í mishárri álagningu gjaldanna í hverju sveitarfélagi fyrir sig.
Fasteignagjöld eru hæst í Borgarnesi, að því er fram kemur í útreikningi Þjóðskrár Íslands fyrir Byggðastofnun, sem tekur mið af fasteign af sömu gerð á öllum stöðunum, einbýlishúsi sem er 161,1 fermetrar að grunnfleti og 808 fermetra lóð.
Samkvæmt mati Þjóðskrár eru fasteignagjöld í Borgarnesi um 351 þúsund krónur á ári. Næst á eftir kemur Keflavík með gjöld upp á 344 þúsund og þar á eftir Húsavík, með 330 þúsund. Lægstu gjöldin eru á Vopnafirði, 180 þúsund, eða 51% af hæstu gjöldunum, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.