Hópur fólks í facebookhópnum „Ferðagrúppa fyrir EM 2016“ hefur tekið sig saman og hyggst bjóða hinum breska stuðningsmanni Íslands sem var stunginn í París á sunnudagskvöld hingað til lands. Unnið er nú að því að fá nafn mannsins svo hægt sé að hefja söfnun fyrir hann.
Hannes Freyr Sigurðsson deildi frétt um atvikið inn í hópinn og óskaði eftir tillögum um hvað hægt væri að gera fyrir manninn. „Leiðinlegt að lesa þetta og maður hugsar bara um það hvort við, sem risastór hópur, gætum gert eitthvað til að gleðja hann og þakka honum fyrir að hafa stutt okkar flotta lið. Yrði frábært að sýna enn og aftur hversu mögnuð þjóð okkar er,“ skrifaði Hannes.
Viðbrögð hafa ekki látið á sér standa og var fljótlega ákveðið að bjóða manninum hingað til lands með eiginkonu sinni á næsta heimaleik Íslands. Sá leikur fer fram 6. október nk. gegn Finnlandi. Nú þegar hefur verið boðin fram hótelgisting fyrir hjónin, flug og akstur til og frá flugvellinum. Auk þess hafa Kynnisferðir boðið upp á ferð fyrir hjónin um landið að sögn Hannesar.
Fram hefur komið að maðurinn sé 25 ára breskur lögregluþjónn, en hann var staddur á bar í París til að styðja íslenska liðið á móti Frakklandi þegar hann var stunginn. Hann var fluttur á sjúkrahús í París en er ekki í lífshættu.
„Ég sá frétt um að þessi maður hefði lent í þessu og hann hefði verið áberandi stuðningsmaður Íslands í þessum leik. Ég ákvað að deila þessu þarna inn en bjóst ekki við svona svakalegum viðbrögðum,“ segir Hannes í samtali við mbl.is. „Þetta er bara partur af þessari miklu EM-gleði og samstöðu.“
Hannes hefur sent fyrirspurnir á breska miðla, breska sendiráðið á Íslandi og bresku lögregluna um það hver maðurinn er svo hægt sé að hafa samband við hann. „Ég er bara að bíða eftir svörum frá því,“ segir hann og bætir við að ákveðið hafi verið að hefja ekki söfnun fyrr en búið væri að ná sambandi við manninn.
Þegar og ef tekst að hafa uppi á manninum segist Hannes ætla að fela Tólfunni að búa til söfnunarreikning fyrir hann.