Niðurstaða málamiðlana

Stjórnarskrárnefnd hefur skilað af sér frumvörpum til forsætisráðherra sem kveða …
Stjórnarskrárnefnd hefur skilað af sér frumvörpum til forsætisráðherra sem kveða á um breytingar á stjórnarskránni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Stjórnarskrárnefnd hefur afhent forsætisráðherra frumvörp til stjórnarskipunarlaga að nýjum ákvæðum í stjórnarskrá um þrjú tiltekin efni. Þau fjalla um þjóðareign á náttúruauðlindum, umhverfis- og náttúruvernd og þjóðaratkvæðagreiðslur að kröfu hluta kjósenda.

Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, segir ánægjulegt að nefndin sé búin að skila þessum tillögum af sér, en að þeim hafi verið unnið býsna lengi.

„Ég held að það sé nauðsynlegt að kanna hvort ekki sé skynsamlegt að reyna að leggja þetta fyrir þingið núna í sumar því að vilji menn koma þessum ákvæðum inn í stjórnarskrá þá er tækifæri núna og langt í að næsta tækifæri opnast“ segir Sigurður Ingi í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag. Hann vísar þar til þess að breytingarnar þyrfti að samþykkja á yfirstandandi þingi og síðan að nýju á þingi eftir kosningar.

Skiptar skoðanir um þröskuldinn

Hann segir að tillögur nefndarinnar séu niðurstaða málamiðlana á milli ólíkra hópa til að ná sem víðtækastri samstöðu, þó að vissulega fylgi sérbókanir niðurstöðunni. Spurður um það atriði að 15% kosningarbærra manna geti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu um lög frá Alþingi segir hann að skiptar skoðanir séu um hver þröskuldurinn eigi að vera. Þetta sé niðurstaða málamiðlana á milli allra flokka á þingi til að ná sem víðtækastri sátt. „Ég held að það væri tillögunnar virði að láta á það reyna hvort við gætum náð að ljúka þessu á síðsumarsþinginu,“ segir forsætisráðherra.

Hann segir áhugavert, og margir hafi talað fyrir því, að það sé nauðsynlegt að koma auðlindaákvæði inn í stjórnarskrána sem og ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur og það gerist með þessum tillögum. Sama eigi við um þriðja þáttinn, sem fjalli um náttúruna.

Hann segir ánægjulegt að þetta verklag skuli hafa verið notað og þessi niðurstaða liggi fyrir. Vinnubrögðin séu í samræmi við það sem til að mynda nágrannar á Norðurlöndunum, t.d. Norðmenn, hafi viðhaft. Þeir hafi tekið afmarkaða þætti fyrir í hvert sinn og endurskoðað stjórnarskrána með þeim hætti.

Leiði aldrei til varanlegs eignarréttar

Á heimasíðu forsætisráðuneytisins er greint frá tillögum stjórnarskrárnefndar og meginefni frumvarpanna.

Í frumvarpi um þjóðareign á náttúruauðlindum er sett fram almennt ákvæði um að auðlindir náttúru Íslands tilheyri íslensku þjóðinni og jafnframt kveðið á um meginforsendur auðlindanýtingar. Mælt er fyrir um þjóðareign á náttúruauðlindum og landsréttindum sem ekki eru háð einkaeignarrétti.

Loks er sett skilyrði fyrir veitingu heimilda til nýtingar auðlinda í eigu ríkisins og í þjóðareign og kveðið á um skyldu ríkisins til þess að taka að jafnaði eðlilegt gjald fyrir og gæta jafnræðis og gagnsæis. Tekið er fram að slíkar heimildir leiði aldrei til varanlegs eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir náttúruauðlindum eða landsréttindum í þjóðareign.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka