Una ekki lengur við hálfklárað verk

Með tvöföldun Reykjanesbrautarinnar var umferð úr gagnstæðum áttum aðskilin til …
Með tvöföldun Reykjanesbrautarinnar var umferð úr gagnstæðum áttum aðskilin til að koma í veg fyrir frekari banaslys með framúrakstri og framanákeyrslum.Tvö­föld­un hef­ur enn ekki verið kláruð á nokkr­um stöðum á leiðinni. mbl.is/Golli

„Þetta er ekki pólitískt mál, þetta er samfélagsmál,“ segir Ísak Ernir Kristinsson, einn stofnenda Facebook-hópsins Stopp, hingað og ekki lengra! sem er hugsaður sem vettvangur til að þrýsta á yfirvöld um að klára tvöföldun Reykjanesbrautar. Banaslys varð á henni á fimmtudag.

Frétt mbl.is: Þúsundir styðja tvöföldun Reykjanesbrautar

Á rúmum sólarhring hafa tæplega 13 þúsund manns gengið í hópinn og miðað við ummæli fólks í hópnum virðast margir langeygðir eftir að tvöföldun verði kláruð. Að sögn Ísaks er hópurinn vettvangur til að beisla þann kraft sem er nú uppi í samfélaginu og beina honum í réttan farveg.

„Með auknum ferðamannastraumi hefur umferðin auðsjáanlega þyngst mjög mikið. Fjöldi íbúa á svæðinu hefur einnig aukist og stór hluti stundar atvinnu sína við flugstöðina. Við verðum að tryggja að fólk geti í upphafi ferðar sinnar, eða í sínu nánasta umhverfi, verið nokkuð öruggt í umferðinni,“ segir Ísak.

Engin banaslys á tvöfalda kaflanum

Öðrum áfanga tvöföldunar brautarinnar lauk í október 2008 og síðan þá hefur ekkert banaslys orðið á þeim kafla. Er það stór breyting á því sem áður var þegar nokkrir létust á ári á þessum 24 kílómetra kafla. Nokkur banaslys hafa þó orðið á einföldum köflum brautarinnar síðustu ár, það síðasta á fimmtudag þegar ökumaður bifhjóls, sem lenti í árekstri við vörubifreið, lést.

Að sögn Ísaks verður nú ekki lengur unað við hálfklárað verk, en litlar sem engar framkvæmdir hafa átt sér stað í þessum efnum í tæplega átta ár. „Stærstu áföngunum er lokið og þetta eru litlir áfangar sem eru eftir. Það þarf bara örfáa milljarða til að klára Reykjanesbrautina,“ segir Ísak og bendir á að gríðarleg verðmæti hafi skapast á Suðurnesjunum síðustu ár svo peningarnir séu til staðar.

Slysagildra þegar þvera þarf brautina

„Við erum með einn flottasta vegakafla landsins á Reykjanesbrautinni þar sem hún er tvöföld, en á móti kemur að þegar farið er í betrumbætur á vegakerfinu þá færast álagspunktarnir og slysagildrurnar,“ segir Ísak og bendir á að mörg alvarleg slys hafi orðið á einfalda kafla brautarinnar í Hafnarfirði, t.a.m. við gatnamótin inn á Vellina og að álverinu.

Á hinum endanum sé einfaldur kafli frá Fitjum og að Leifsstöð þar sem á nokkrum stöðum þurfi að þvera Reykjanesbrautina til að komast inn á hana. „Fyrsta skrefið væri að gera lágmarksbetrumbætur eins og að banna vinstribeygjur svo fólki þurfi ekki að þvera Reykjanesbrautina. Það er slysagildra,“ segir Ísak og bendir á að þegar séu til staðar hringtorg og ekki þurfi að fara miklar krókaleiðir til að láta þetta ganga upp.

Lokun vega ekki endilega leið til árangurs

Ísak segir að stofnendur hópsins hafi viljað leyfa umræðunni að gerjast til að byrja með og framhaldið sé ekki komið í ljós. Búið sé þó að bjóða stjórnmálamönnum og bæjarstjórum allflestra sveitarfélaga í hópinn. „Ég hef rætt við þá allflesta í síma og þeir styðja vissulega þetta mál, enda ekki annað hægt,“ segir Ísak. 

Þá hafi verið ákveðið að stofna framkvæmdahóp nokkurra aðila líkt og gert var með Á-hópnum, sem stofnaður var í desember 2000 eftir banaslys sem varð á brautinni, og var ætlað að þrýsta á stjórnvöld um tvöföldun. Sá hópur muni ákvarða hver séu næstu skref og hvernig sé hægt að auka á þrýsting við stjórnvöld. „Við viljum höfða til stjórnvalda á eðlilegum og uppbyggilegum nótum. Við teljum að mótmæli eins og lokun vega sé ekki endilega leið til árangurs,“ segir Ísak að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert