Djúpt snortinn yfir stuðningi Íslendinga

Lögreglumaðurinn sem stunginn var í París eftir leik Íslands og …
Lögreglumaðurinn sem stunginn var í París eftir leik Íslands og Frakklands er djúpt snortinn yfir stuðningi Íslendinga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Breski stuðningsmaður Íslands sem stunginn var í París eftir leikinn gegn Frakklandi er djúpt snortinn yfir stuðningi Íslendinga, sem hafa boðið honum og unnustu hans hingað til lands. Segir hann stuðninginn hafa skipt sköpum á erfiðum tímum.

„Þið hafið snert okkur bæði með góðmennsku ykkar og stuðningurinn hefur endurreist trú okkar á mannkynið,“ skrifar hann í tölvupósti til Hannesar Freys Sigurðssonar, en hann var sá sem fékk hugmyndina að því að gera eitthvað fyrir manninn. „Ég lít svo á að þið hafið fært okkur norðurljósin ykkar á dimmum tímum.“

Bjóða parinu á næsta heimaleik Íslands

Hannes deildi frétt um atvikið í Face­book-­hóp­inn „Ferðagrúppa fyr­ir EM 2016“ og óskaði eft­ir til­lög­um um hvað hægt væri að gera fyrir manninn. Fljótlega kom upp sú hugmynd að bjóða honum hingað til lands ásamt unnustu hans á næsta heimaleik íslenska liðsins. Sá leik­ur fer fram 6. októ­ber nk. gegn Finn­landi.

Parið hefur þegið boðið með þökkum og hlakkar mikið til að sjá íslenska liðið spila aftur. „Ég hafði virkilega gaman af því að fylgjast með Íslendingunum spila á EM þar sem þeir sýndu svo mikla ástríðu. Þið getið verið mjög stolt af liðinu ykkar og við hlökkum mikið til að sjá þá spila aftur í leiknum gegn Finnlandi,“ skrifar hann í tölvupóstinum.

Þá segist hann gjarnan vilja fá að ávarpa stuðningsmenn Íslands í hálfleik á leiknum sé það mögulegt.

Árásin algjörlega tilefnislaus

Eins og mbl.is hef­ur greint frá var maður­inn, sem er 25 ára gam­all lög­regluþjónn, stunginn eftir leikinn nærri Gare du Nord-lestarstöðinni þar sem Eurostar-lest fer á milli London og Parísar. Að sögn tengiliðar hans var árásin algjörlega tilefnislaus.

Eftir árásina gekkst hann undir mjög erfiða aðgerð og er hann enn að jafna sig eftir hana. Hannes segir að honum fari hægt batnandi en hann hafi í fyrsta sinn í gær náð að setjast upp. Hann verður í París í einhverja daga í viðbót þar sem hann er of máttfarinn til að ferðast eins og er.

Hann segir viðbrögð Íslendinga þó hafa kveikt von í brjósti sínu og hjálpað honum í gegnum bataferlið. „Allir Íslendingar munu eiga stað í hjarta okkar að eilífu eftir að hafa sýnt okkur svona mikla samúð á þessum erfiðu tímum.“

Kom­in með flug, hót­el, mat, akst­ur og skoðun­ar­ferðir

Nú þegar hafa fjölmörg fyrirtæki boðið fram þjónustu sína svo hægt verði að bjóða parinu hingað til lands og er þegar komið flug, hótelgisting, akstur til og frá flugvellinum, matur á veitingahúsum og skoðunarferðir um landið. 

Hann­es hef­ur sett liðsmenn Tólf­unn­ar inn í málið og mun fela þeim að skipu­leggja ferðina fyr­ir hjón­in. Sjálf­ur seg­ist hann afar ánægður með viðbrögðin, sem hafi farið fram úr björt­ustu von­um. 

Frétt mbl.is: Hrærð yfir boðinu til Íslands

Frétt mbl.is: Vilja bjóða stuðnings­manni til Íslands

Frétt mbl.is: Stuðnings­maður Íslands stung­inn í Par­ís

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert