Afnema vinstri beygju við Hafnaveg

Ekki á að ljúka tvöföldun Reykjanesbrautar fyrir 2018.
Ekki á að ljúka tvöföldun Reykjanesbrautar fyrir 2018. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Til stendur að afnema vinstri beygju frá Hafnavegi út á Reykjanesbraut. Banaslys varð á gatnamótunum á fimmtudag. Slysið er áttunda banaslysið í umferðinni á árinu.

„Þegar útboð var gert á hringtorginu við Fitjar hefði síðasta verkið í þeirri vinnu átt að vera að taka vinstri beygjuna frá Hafnavegi út á Reykjanesbraut af,“ segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar.

Verkið tafðist hins vegar vegna veðurs. Nú hefur verið samþykkt að gera undirgöng á þessum vegarkafla og segir G. Pétur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag, að hentugast sé að vinna að þessum verkefnum samtímis, sem fyrst.

Átta banaslys hafa orðið í umferðinni það sem af er ári. Sex slys áttu sér stað á síðastliðnum fimm vikum, nú síðast á fimmtudag þegar vörubíll tók vinstri beygju inn á Reykjanesbraut frá Hafnavegi með þeim afleiðingum að bíllinn og bifhjól á suðurleið skullu saman og ökumaður bifhjólsins lést.

Ágúst Mogensen, rannsóknarstjóri hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa, segir að ekki sé tímabært að fullyrða hvort um sérstaklega hættulega vegarkafla sé að ræða í tilvikunum sex, þó að slysið á fimmtudag hafi átt sér stað á kafla sem Vegagerðin hefur haft áform um að breyta. „Vegsýnið er slæmt og þetta eru ekki góð gatnamót yfirhöfuð,“ segir Ágúst.

Stofna framkvæmdahóp um tvöföldun Reykjanesbrautar

Á fimmtudag var stofnaður hópur á Facebook undir nafninu Stopp hingað og ekki lengra! að frumkvæði Ísaks Ernis Kristinssonar og Guðbergs Reynissonar. Rúmlega 15.000 manns hafa skráð sig í hópinn á þremur sólarhringum, en markmið hópsins er að hvetja stjórnvöld til að ljúka við tvöföldun Reykjanesbrautarinnar.

„Við bjuggumst ekki við þessu þegar við fórum af stað með hópinn, þó svo að þetta sé eitthvað sem við vissum að allir Suðurnesjamenn vilja,“ segir Ísak. Hann segir hópinn vera hluta af 20 ára baráttu íbúa sveitafélaganna á Reykjanesi fyrir tvöföldun Reykjanesbrautar, nánast allar fjölskyldur á Suðurnesjum tengist á einhvern hátt alvarlegum slysum sem hafa átt sér stað á brautinni í gegnum tíðina.

Næstu skref átaksins eru að stofna framkvæmdahóp sem verður komið af stað á næstu dögum. „Við ætlum að eiga uppbyggilegt og hnitmiðað samtal við ráðamenn, þetta er fyrst og fremst samfélagsmál. Framkvæmdahópurinn mun setja fram hverjar kröfur okkar eru. Við viljum klára verkið sem byrjað var á,“ segir Ísak.

Samkvæmt samgönguáætlun fyrir tímabilið 2015 til 2018 verður þó ekki lokið við tvöföldun Reykjanesbrautar fyrir árið 2018. Ásamt því að klára tvöföldun Reykjanesbrautar að fullu telur Ísak meðal brýnna verkefna að banna allar vinstri beygjur út á Reykjanesbrautina.

Að sögn G. Péturs Matthíassonar, upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar, hefur staðið til að fjarlægja vinstri beygjuna þar sem slysið átti sér stað á fimmtudag. „Þegar útboð var gert á hringtorginu við Fitjar hefði síðasta verkið í þeirri vinnu átt að vera að taka vinstri beygjuna frá Hafnavegi út á Reykjanesbraut af.“ Verkið tafðist hins vegar vegna veðurs, en verkið var unnið að vetri til. Nú hefur verið samþykkt að gera undirgöng á þessum vegarkafla og segir G. Pétur að hentugast sé að vinna að þessum verkefnum samtímis. Útboð á verkinu fer fram á næstu vikum. „Það hefur því alltaf staðið til að þessi beygja verði tekin af. Ef verkið með undirgöngin frestast munum við setja verkefnið þannig upp að beygjan verði samt sem áður tekin.“

Frétt mbl.is: Bifhjólamaðurinn sem lést

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert