Björn Steinbekk kærður til lögreglu

Björn Steinbekk hefur verið kærður til lögreglu.
Björn Steinbekk hefur verið kærður til lögreglu. mbl.is/Kristinn

Athafnamaðurinn Björn Steinbekk hefur verið kærður til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. RÚV greinir frá þessu. Í frétt RÚV kemur fram að Bryndís Björk Guðjónsdóttir hafi lagt fram kæru á fimmtudaginn en hún er ein þeirra sem sátu eftir með sárt ennið eftir að hafa keypt miða af Birni á leik Íslands og Frakklands á Evrópumótinu.

Engin hópmálsókn lögð fram

Eins og mbl.is greindi frá í síðustu viku hefur fjöldi fólks haft samband við lögfræðinga til að leita réttar síns eftir að hafa keypt miða af Birni. Eins og fram hefur komið komust margir þeirra sem greitt höfðu fyrir miðana aldrei inn á leikvanginn. Stofnaður var lokaður hópur á Facebook þar sem undirbúin var málsókn, en að sögn lögmanns, sem mbl.is ræddi við og hópurinn hefur haft samband við, hefur þó engin hópmálsókn verið lögð fram. Eru kröfur ólíkar og því erfitt að sækja málið sameiginlega. 

Sami lögfræðingur sagði í síðustu viku að ekki væri ósennilegt að um refsiverða háttsemi væri að ræða. Get­ur at­hæfi Björns því hugs­an­lega fallið und­ir fjár­svik í skiln­ingi hegn­ing­ar­laga. Marg­ir hafi orðið fyr­ir fjár­hags­legu tjóni eft­ir viðskipti sín við Björn auk þess sem viðskipta­vin­ir hans hafi marg­ir hverj­ir orðið fyr­ir til­finn­inga­leg­um óþæg­ind­um og sorg. Þá hafi fólk orðið fyr­ir öðru tjóni sem felst til dæm­is í ferðakostnaði eða vinnu­tapi.

Sé um fjár­svik og blekk­ing­ar í viðskipt­um að ræða eigi tjónþolar þann kost að sækja bæt­ur fyr­ir dóm­stól­um, eins og lög kveði á um. Hugs­an­legt sé að meint­ir tjónþolar sam­ein­ist í mál­sókn með svo­kallaðri sam­lagsaðild, en málið sé þó enn á frum­stigi. Því sé ekki tíma­bært að leggja dóm á mál sem eigi eft­ir að leiða til lykta með rétt­um leiðum. 

Borgaði 150 þúsund fyrir þrjá miða

Í frétt RÚV kemur fram að Bryndís hafi borgað Birni tæplega 150 þúsund krónur fyrir þrjá miða á leikinn. Hún hafi millifært peningana á bankareikning Sónar Reykjavík ehf. en ekki Björns. Eins og mbl.is greindi frá sagði Björn af sér sem framkvæmdastjóri félagsins Sónar Reykjavík ehf. í síðustu viku.

Þá kemur fram að Bryndís hafi í tvígang haft samband við lögmannsstofuna Forum til að fá miðana endurgreidda, en ekki fengið svör. Björn fól lögmannsstofunni að annast samskipti varðandi kröfur vegna endurgreiðslu á miðum. Bryndís segist hafa tilkynnt Forum á fimmtudaginn að hún hygðist kæra Björn til lögreglu. 

Björn sagði í sam­tali við mbl.is í síðustu viku að miðar sem komust ekki til skila yrðu end­ur­greidd­ir. „Við höf­um unnið hart að því í dag að koma þess­um mál­um í ferli til að sýna fólki að við ber­um fulla ábyrgð á því ástandi sem er komið upp,“ sagði Björn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert