HÚH-ið varð að húðflúri

Bjarni fékk sér húðflúr af Íslandi og HÚH-fagninu á kálfann.
Bjarni fékk sér húðflúr af Íslandi og HÚH-fagninu á kálfann. ljósmynd/Málfríður Sigrúnardóttir

Víkingaklapp stuðningsmanna íslenska landsliðsins á EM hefur vakið gríðarlega athygli víða um heim og fyllt landsmenn miklu þjóðarstolti. Bjarni Þór Kristjánsson varð þó líklega stoltari en flestir þegar hann ákvað á dögunum að láta húðflúra HÚH-ið á kálfann.

„Mig hefur langað að fá mér tattú með landinu og fánanum frá því ég var 17 ára, einfaldlega því ég elska þetta land, en eftir að Ísland tryggði sér sæti á EM ákvað ég að kýla á þetta,“ segir Bjarni í samtali við mbl.is.  

Lét hann húðflúra mynd af landinu í fánalitunum en fyrir ofan myndina stendur HÚH!. „Að sjá alla þessa frábæru stuðningsmenn uppi í stúku að hrópa „HÚH“ lét mann fyllast þjóðarstolti svo ég varð að henda því með,“ segir hann. 

Það var málfríður Sigrúnardóttir á húðflúrstofunni Tattoo og skart sem gerði húðflúrið.

Bjarni komst ekki út til Frakklands til að fylgjast með liðinu vegna vinnu, en segist 100% viss um að fara á næsta stórmót ef liðið endurtekur leikinn. „Ég hef alltaf verið mikill áhugamaður um fótbolta,“ segir hann og bætir við að hann hafi stutt Leikni og Manchester United síðan hann muni eftir sér. 

Aðspurður hvort hann hafi fengið viðbrögð frá leikmönnum segir hann að svo sé ekki, en hann hafi þó fengið nokkuð mikil viðbrögð frá stuðningsmönnum. „Sérstaklega um seinustu helgi þegar ég var að vinna. Þá kom fólk sem ég þekki ekki neitt og gaf mér high-five og sagði mér að þetta væri vel gert hjá mér,“ segir hann og bætir við að einn hópur hafi gengið enn lengra og tekið víkingaklappið fyrir hann. „Mér fannst það bara snilld.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka