Ingólfstorg aftur EM-torg að ári

Stemning á EM torginu í júní.
Stemning á EM torginu í júní. mbl.is/Árni Sæberg

EM-torginu á Ingólfstorgi verður nú pakkað saman eftir síðasta leik Evrópumeistaramótsins í knattspyrnu, úrslitaleik Portúgals og Frakklands, í gær. Manhattan Marketing hefur haft veg og vanda af skipulagningu EM-torgsins í samstarfi við Reykjavíkurborg og bakhjarla torgsins.

Í frétt frá Reykjavíkurborg segir að vinsældir EM-torgsins hafi verið miklar og þegar Ísland komst í 8 liða úrslitin var ákveðið að flytja skjáinn út á Arnarhól þegar Ísland spilaði gegn Englandi og Frakklandi. Þangað komu mörg þúsund manns saman til að fylgjast með leikjunum, hvetja landsliðið áfram og fagna góðu gengi. 

Bakhjarlar EM-torgsins á Ingólfstorgi hafa lýst yfir vilja sínum til að endurtaka leikinn að ári ef íslenska kvennalandsliðið kemst á EM 2017. Sætið í úrslitakeppni EM, sem fram fer í Hollandi á næsta ári, er innan seilingar hjá íslenska kvennalandsliðinu.

Framundan eru tveir leikir svo að stelpurnar okkar geti tryggt sætið í úrslitakeppninni, leikirnir eru gegn Slóveníu, 16. september og gegn Skotum, 20. september. „Með sigri liðsins geta borgarbúar hlakkað til næsta sumars og notið þess að sitja í blíðviðri á EM-torginu að ári og fylgst með kvennalandsliðinu í knattspyrnu spila  spennandi fótboltaleiki á EM í Hollandi,“ segir í frétt Reykjavíkurborgar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka