Bankaráð Seðlabanka Íslands hefur óskað eftir því að lögfræðingar bankans kanni tengsl aflandsfélagaviðskipta fyrrverandi seðlabankastjóra og fyrrverandi bankaráðsformanns við störf þeirra hjá bankanum. Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV.
Greint var frá því í Kastljósi í lok apríl að Helgi S. Guðmundsson, þáverandi formaður bankaráðs Seðlabankans, hafi verið skráður eigandi félags á Panama ásamt Finni Ingólfssyni, fyrrverandi seðlabankastjóra, árið 2007. Svo virðist sem Landsbankinn hafi stofnað félagið fyrir þá til þess að lána fyrir kaupum á bréfum í bankanum sjálfum. Reykjavík Media vann umfjöllunina ásamt Kastljósi.
Þá er því haldið fram í fréttum RÚV að bankaráð Seðlabankans hafi tekið málið upp á fundi daginn eftir að Kastljósþátturinn var sýndur. Þar var rætt um tengsl Finns og Helga við aflandsfélög og samþykkt einróma að óska eftir umsögn frá Seðlabankanum um hvort þeir hefðu upplýst bankann um aflandsviðskipti sín, hvort einhverjar reglur hefðu verið í gildi um slík viðskipti stjórnenda bankans og þá hvort ástæða væri til viðbragða. Þá var sérfræðingum bankans falið að skoða málið en niðurstaða mun ekki hafa verið kynnt bankaráðinu enn þá.