Áhugaverður kostur en óvissan mikil

Ingvi Már Pálsson, skrifstofustjóri í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, á blaðamannafundinum …
Ingvi Már Pálsson, skrifstofustjóri í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, á blaðamannafundinum í dag. mbl.is/Eggert

Viðræðuhópur íslenskra og breskra stjórnvalda, sem var fenginn til þess að kanna mögulega tengingu landanna í gegnum sæstreng, er sammála um að lagning slíks strengs sé mjög áhugaverður kostur. Þó séu margir óvissuþættir til staðar. Til dæmis sé alveg ljóst að verkefnið verður ekki að veruleika án sérstaks stuðnings frá Bretum.

Viðræðurnar hófust í kjölfar fundar forsætisráðherra landanna hér á landi í október 2015 og lauk þeim í maí á þessu ári.

Ingvi Már Pálsson, skrifstofustjóri í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og formaður verkefnisstjórnarinnar, sagði á blaðamannafundi í dag að ekki hefði verið um eiginlegar samningaviðræður að ræða, heldur hefði markmiðið verið að afla upplýsinga um málið.

Leiddu í ljós áhuga Breta

Viðræðurnar leiddu í ljós áhuga Breta til að kanna málið frekar þrátt fyrir ákveðna óvissuþætti sem komu fram í viðræðunum og felast meðal annars í því að verkefnið er ekki fjárhagslega tækt án stuðnings frá Bretum.

Einnig kom fram í viðræðunum að hefðbundin viðskiptalíkön og regluverk fyrir sæstrengi næðu ekki yfir verkefnið. Ein stærsta hindrunin sem þyrfti að komast yfir væri því að komast að sameiginlegri niðurstöðu um sérsniðið viðskiptalíkan, regluverk og stuðningskerfi sem gerði verkefnið mögulegt. 

Afla þyrfti leyfis eftirlitsaðila fyrir því.

Frá blaðamannafundinum í dag.
Frá blaðamannafundinum í dag. mbl.is/Eggert

Ræddu almenningsálitið

Á fundunum fjórum var einnig nefnd möguleg óvissa og tímasetningar um viðbótarraforkuframleiðslu á Íslandi til þess að standa undir úflutningi á raforku í gegnum 1.000 MW sæstreng.

Einnig væri brýn þörf á uppbyggingu á flutningskerfi raforku fyrir sæstrenginn.

Auk þess nefndi Ingvi Már að viðræðuhópurinn hefði fjallað um álit almennings gagnvart sæstreng. Það skipti máli.

Umtalsverður ávinningur

Í könnunarviðræðunum kom einnig fram að margvíslegur ávinningur kynni að vera af því að tengja raforkukerfi Íslands og Bretlands saman með sæstreng. Auk mögulegs fjárhagslegs ávinnings fyrir bæði lönd, að því gefnu að komist yrði að samkomulagi um samningslíkan og regluverk, mætti til dæmis nefna aukið orkuöryggi, í báðum löndum, og aukna áherslu á notkun endurnýjanlegra orkugjafa með tilheyrandi jákvæðum umhverfislegum áhrifum.

Gerðu ráð fyrir stærri hlut vatnsafls

Ingvi Már sagði það hafa komið Bretum á óvart að sjá í skýrslu Kviku og Pöyry hvað gert væri ráð fyrir mikilli raforkuframleiðslu frá jarðvarma og vindi í forsendum orkuöflunar fyrir sæstrenginn. Bretar höfðu gert ráð fyrir stærri hlut vatnsafls í þeirri viðbótarorku sem sæstrengur myndi kalla á.

Var það rætt nánar á fundunum og kom meðal annars fram að bresk stjórnvöld gætu ekki veitt stuðning fyrir raforkuframleiðslu úr vindorku á landi, þar sem stefna þeirra væri að draga úr styrkjum til slíkrar framleiðslu.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og David Cameron ákváðu á fundi sínum …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og David Cameron ákváðu á fundi sínum hér í Reykjavík síðasta haust að setja á laggirnar vinnuhóp til þess að kanna mögulegan sæstreng á milli Íslands og Bretlands. mbl.is/Árni Sæberg

Hópurinn ræður ekki framhaldinu

Viðræðuhópurinn var sammála um að það væri ekki í verkahring hans að taka ákvörðun um hvort taka eigi verkefnið yfir á næsta stig eða ekki. Heldur væri það ekki í verkahring hópsins að gera sérstakar tillögur um hvort ástæða sé til þess að fara með verkefnið áfram yfir á næsta stig.

Í lok viðræðnanna kom fram að ef ákvörðun yrði tekin um að halda áfram með verkefnið gæti það falist í eftirfarandi þáttum, sem snúa að stjórnvöldum landanna:

  • Sameiginleg kostnaðar- og ábatagreining. Til að finna betur sameiginlegar forsendur og helstu stærðir.
  • Frekari sameiginleg könnun á því hvers konar regluverk þarf að sérsníða fyrir verkefnið, hvaða svigrúm er til þess og meta líkur á því hvort slíkt regluverk fengist samþykkt af eftirlitsaðilum.
  • Frekari sameiginleg könnun á því hvers konar sérsniðið viðskiptalíkan gæti gert verkefnið áhugavert fyrir báða aðila og fjárhagslega tækt.
  • Frekari sameiginleg könnun á því hvers konar stuðningskerfi gæti verið unnt að sérsníða til að styðja við verkefnið og gera það að veruleika.
  • Frekari sameiginleg könnun á fyrirkomulagi raforkuflutnings á milli landanna, t.d. nánari samanburður á grunnorkuvinnslu ("base load") og óstýranlegri orkuvinnslu ("intermittent").

Sameiginleg yfirlýsing frá viðræðuhópnum

Frétt mbl.is: Stuðningur Breta forsenda sæstrengs

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert