Mannréttindabrjótar eða umbótasinnar?

H&M er á leiðinni til Íslands.
H&M er á leiðinni til Íslands. Ljósmynd/H&M

Koma sænska tískurisans H&M hingað til lands hefur líklega ekki farið framhjá neinum, en opnaðar verða tvær H&M verslanir hér á landi á næstu tveimur árum. Lágt verð hefur lengi verið eitt af aðalsmerkjum keðjunnar, en í gegnum tíðina hefur fyrirtækið sætt gagnrýni fyrir að starfa með verksmiðjum sem brjóta réttindi starfsfólks síns.

Vildu bæta vinnuaðstæður eftir mannskætt slys

Þrjú ár eru síðan stjórnendur H&M samþykktu ráðstafanir til að bæta vinnuaðstæður starfsmanna, með því að skrifa undir samninginn Accord on Fire and Building Safety in Bangladesh. Skömmu áður létust 1.127 manns þegar bygging við Rana-torg í Dhaka, höfuðborg Bangladess, hrundi. Byggingin var ólögleg og ekki ætluð til verksmiðjureksturs.

Fjölmörg stór fyrirtæki fylgdu fordæminu og skrifuðu undir samninginn, en verkalýðsfélög höfðu um nokkurt skeið reynt að fá vestrænu fatarisana til að skrifa undir samkomulagið. Fram að slysinu höfðu hins vegar aðeins tvö fyrirtæki skrifað undir. Í nýlegri skýrslu kemur fram að mörg framfararskref hafi verið tekin, en enn sé þó langt í land svo starfsmenn starfi í viðunandi vinnuaðstæðum. 

H&M stærsti kaupandi fatnaðar frá Bangladess

H&M er stærsti kaup­andi fatnaðar frá Bangla­dess, en verksmiðjur sem framleiða föt fyrir H&M eru ekki í eigu fyrirtækisins, heldur eru gerðir sjálfstæðir samningar við þær. Verksmiðjurnar þurfa að fylgja ströngum reglum fyrirtækisins, en enn virðist þó á einhverjum stöðum brotið gegn réttindum starfsfólksins.

Á vef H&M segir að Bangladess sé einn mikilvægasti framleiðslumarkaður fyrirtækisins, og að stjórnendur þess leggi sig fram við að styðja við uppbyggingu í landinu og auka lífsgæði fólksins sem þar býr. Árið 2013 tóku starfsmenn á vegum H&M viðtöl við yfir 13 þúsund starfsmenn til að spyrja þá út í vinnuaðstæður þeirra, og haldin voru sérstök námskeið fyrir starfsfólkið þar sem því var kennt hvernig það ætti að bera sig að þegar kemur að launum o.þ.h. Þá fengu um 430 þúsund starfsmenn fræðslu um réttindi sín. Auk þess hefur fyrirtækið barist fyrir hærri lágmarkslaunum í Bangladess undanfarin ár.

Fatafram­leiðsla er helsta út­flutn­ings­grein Bangla­dess og starfa um fjórar milljónir manna í land­inu við grein­ina. En iðnaður­inn er bor­inn uppi af fólki sem fær mjög lág laun fyr­ir vinnu sína og verk­föll eru tíð í verk­smiðjun­um.

Eldur kviknaði í verksmiðju H&M í Bangladess árið 2013 og …
Eldur kviknaði í verksmiðju H&M í Bangladess árið 2013 og létust sjö starfsmenn. AFP

Vinnuaðstæður ekki nægilega öruggar

Í skýrslu sem fern samtök sem berjast fyrir réttindum starfsmanna og bættum vinnuaðstæðum í fataiðnaðinum birtu fyrr á þessu ári, kemur fram að vinnuaðstæður séu ekki nægilega öruggar þar sem það vanti viðunandi brunaútganga í allt að 70% verksmiðja. Ein samtakanna, Clean Clothes Campaign, birtu frétt um skýrsluna í maí sl. þar sem fram kemur að einhverja framför megi sjá frá fyrri árum, en þó sé enn langt í land til að starfsmenn starfi í viðunandi vinnuaðstæðum.

„Það er óásættanlegt að í meirihluta H&M-verksmiðja eigi starfsfólk á hættu á að festast inni ef upp kemur eldur,“ var haft eftir Ineke Zeldenrust, hjá Clean Clothes Campaign. Á síðustu árum hefur fjöldi starfsfólks verksmiðja látið lífið í eldsvoðum, en alls eru 255 verksmiðjur sem framleiða föt fyrir H&M í Bangladess.

Í svari við skriflegri fyrirspurn blaðamanns mbl.is til H&M kemur fram að lagt sé mikið upp úr öryggi starfsmanna í verksmiðjum. Allir birgjar verði að fylgja öryggiskröfum fyrirtækisins, sem taki enn strangari kröfum fagnandi. Um sé að ræða nýjar viðbótarkröfur frá Accord on Fire and Building Safety in Bangladesh sem smám saman sé verið að innleiða í fleiri verksmiðjum.

„Sem dæmi má nefna að í öllum verksmiðjum hafa nú verið fjarlægðir lásar sem gætu gert fólki erfitt fyrir að komast út ef upp kæmi eldur, auk þess sem allar rennihurðir, samfellanlegar hurðir og rúlluhurðir hafa verið fjarlægðar úr öllum verksmiðjum,“ segir í svarinu frá H&M. Þá segir að auk þessa fari H&M fram á það að í öllum verksmiðjum séu neyðarútgangar, neyðarljós, brunabjöllur, slökkvitæki, rýmingaráætlanir og reglulegar brunaæfingar.

Starfsfólk fataverksmiðja í Bangladess að mótmæla lágum launum árið 2013.
Starfsfólk fataverksmiðja í Bangladess að mótmæla lágum launum árið 2013. AFP

Konur reknar fyrir að vera óléttar

Þá var önnur skýrsla birt fyrr á þessu ári, sem byggist á vitnisburðum 251 starfsmanns í saumaverksmiðjum H&M í Asíu. Benti hún til þess að gróflega væri brotið gegn réttindum starfsfólksins; konur hafi verið reknar fyrir að verða óléttar og hafi orðið fyrir kynferðislegri áreitni í vinnunni.

Tíma­ritið Broa­dly grein­di frá skýrsl­unni sem unn­in var af Asia Floor Wage Alli­ance en það eru sam­tök stétt­ar­fé­laga og sam­taka er berj­ast fyr­ir rétt­ind­um starfs­manna í asíska fataiðnaðinum. 

Sam­kvæmt skýrsl­unni höfðu starfs­menn í ell­efu af tólf verk­smiðjum tísku­keðjunn­ar í Kambódíu annaðhvort orðið vitni að því að sam­starfs­kona væri rek­in vegna þung­un­ar eða orðið fyr­ir því sjálfir. Þá sögðu all­ir fimm­tíu starfs­menn­irn­ir sem rætt var við í Indlandi að þung­un væri brottrekstr­ar­sök. Í Kambódíu sögðu starfs­menn í níu af tólf verk­smiðjum fyr­ir­tæk­is­ins að kyn­ferðis­leg áreitni viðgeng­ist á vinnustaðnum.

Í skýrsl­unni var bent á að starfs­fólk eigi erfitt með að kom­ast út úr þess­um aðstæðum. Ráðning­ar­samn­ing­ar séu oft­ast ein­ung­is gerðir til þriggja mánaða og eigi starfs­menn á hættu að samn­ing­ur­inn verði ekki end­ur­nýjaður ef þeir kvarta eða biðja t.d. um veik­inda­frí. Þá sé sama hætta fyr­ir hendi ef þeir ganga í stétt­ar­fé­lag til að berj­ast fyr­ir betri laun­um. 

Starfs­menn í fata­verk­smiðjum keðjunn­ar í Kambódíu eru með 140 doll­ara, eða um 18 þúsund krón­ur, í mánaðarlaun að meðaltali, en það eru lág­marks­laun í land­inu.

Í svarinu við fyrirspurn mbl.is sagðist talsmaður H&M meðvitaður um vandamálið með ráðningarsamninga og sagði það útbreitt í fataiðnaðinum á þessum slóðum. H&M samþykki þó ekki undir neinum kringumstæðum að konum væri sagt upp vegna þungunar, og væri það gróft brot á samningi sem gerður væri við allar verksmiðjur.

Fyrirtækið hefði innleitt strangari kröfur til birgja til að reyna að vinna bug á vandamálinu með skammtímasamninga og frá árinu 2015 hefði fyrirtækið gert kröfu um að starfsfólk sem hefur starfað hjá verksmiðjunum í yfir tvö ár fái ótímabundna samninga.

Árið 2012 kviknaði eldur í verksmiðju í Bangladess og létust …
Árið 2012 kviknaði eldur í verksmiðju í Bangladess og létust hundruð starfsmanna. AFP

Vilja að starfsfólk fái hærri laun

Fyrir fjórum árum var sýnd heimildarmynd á TV4 sjónvarpsstöðinni í Svíþjóð þar sem fram kom að starfsfólk verksmiðju sem vann fyrir H&M fengi svo lág laun að þau nægðu ekki fyrir fæði starfsmanna. Kom þar fram að starfsfólk fengi greiddar 58 sænskar krónur, rúmar eitt þúsund íslenskar krónur, fyrir sjötíu klukkustunda langa vinnuviku.

Eftir að myndin var sýnd sagði forstjóri H&M, Karl-Johan Persson, að ekkert væri hæft í ásökununum. Sagði hann að H&M kenndi starfsmönnum sínum hvernig þeir ættu að semja um laun við vinnuveitendur sína. Fyr­ir­tækið vildi að verka­menn­irn­ir fengju hærri laun og hefði það beitt stjórn­völd í Kambódíu þrýst­ingi um að hækka lág­marks­laun í land­inu.

Í kjölfarið fór H&M jafnframt fram á það við stjórnvöld í Bangla­dess að hækkuð yrðu lágmarkslaun verka­fólks sem vinn­ur í millj­óna­vís við að fram­leiða föt fyr­ir er­lenda markaði. Í framhaldinu heimsótti Person Dakka, höfuðborg Bangladess, og skoðaði verksmiðju sem framleiddi föt fyrir keðjuna. Mánaðarlaun­in þar námu tæp­um 4.600 krón­um eða 37 Banda­ríkja­döl­um. 

„Við vilj­um að komið sé vel fram við verka­fólkið. Við erum ábyrgðarfullt fyr­ir­tæki og við lít­um svo á að lág laun í iðnaðinum standi okk­ur nærri og þau valda okk­ur áhyggj­um,“ sagði Pers­son á þeim tíma.

Neituðu ásökunum um barnaþrælkun

Árið 2011 var greint frá því að yfir 200 kambódískir verkamenn hefðu fallið í yfirlið við störf sín í verksmiðju sem framleiddi föt fyrir H&M. Ástæðan var talin efni sem notuð eru í verksmiðjum til að halda kakkalökkum í skefjum. 

Þá var H&M harðlega gagnrýnt árið 2007 þegar sænsk heimildarmynd var birt í sænska ríkissjónvarpinu, en þar kom fram að keðjan notaðist við bómull í fataframleiðslu, sem börn í Úsbekistan tína.

Í mynd­inni komu fram upp­lýs­ing­ar frá mann­rétt­inda­sam­tök­um um að 450 þúsund börn í Úsbekist­an, allt niður í 7 ára göm­ul, væru neydd til að fara út á bóm­ull­ara­kr­ana á haust­in til að tína bóm­ull. Skól­um lands­ins væri lokað svo börn­in geti unnið launa­laust á ökr­un­um í allt að 8 tíma á dag

Mest­öll upp­sker­an væri svo seld til evr­ópskra fyr­ir­tækja, sem fram­leiða fata­efni. Sænska sjón­varpið full­yrti að H&M væri á meðal þeirra fatafram­leiðenda sem not­uðu bóm­ull frá Úsbekist­an. Und­ir­verktaki H&M í Bangla­desh hefði keypt bóm­ull beint frá land­inu.

Eftir að myndin var sýnd var haft eft­ir Kat­ar­ina Kem­pe, talskonu H&M, að það væru ekki nýj­ar upp­lýs­ing­ar, að börn væru notuð í vefnaðarfram­leiðslu. Fyr­ir­tækið líði hins veg­ar ekki barnaþrælk­un hjá sín­um birgj­um og vildi ekki að slíkt ætti sér stað. Fyr­ir­tækið hefði lengi reynt að hafa áhrif á aðra fram­leiðend­ur í þessu efni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert