Þyrla Landhelgisgæslunnar hefur aðstoðað Slysavarnafélagið Landsbjörg við að flytja mannskap og búnað á vettvang við á í Sveinsgili en erlendur ferðamaður féll ofan í hana fyrr í kvöld.
Á meðal búnaðar sem notast er við eru keðjusagir og skóflur, enda snjórinn þéttur á svæðinu. Moka þarf í gegnum „gríðarleg snjómagn“, að sögn talsmanns Landsbjargar.
Leitarsvæðið er tiltölulega þröngt. Farnar hafa verið ferðir upp og niður ána en talið er að ferðamaðurinn sé undir snjóbrúnni sem er yfir ánni.
Frétt mbl.is: Erfiðar aðstæður við Sveinsgil
Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst klukkan 18.07 beiðni frá lögreglu um aðstoð þyrlu vegna ferðamanns. Samferðamanni hans hafði tekist að láta vita en þeir voru á gangi yfir ísbrú þegar slysið varð.
Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LIF, var þegar kölluð út og flaug á vettvang. Þá var ekki nákvæmlega vitað hvar ferðamennirnir væru staddir en þyrlan fann mjög fljótlega þann sem náð hafði að tilkynna um slysið og þar með var staðsetning slysstaðar kunn.
Veður er tekið að versna á slysstað, byrjað að rigna og skyggni er lítið.
Frétt mbl.is: Féll í á við Sveinsgil