Senda á flotbrúðu undir ísdyngjuna sem liggur yfir ána í Sveinsgili, til að sjá hvar hún stoppar, samkvæmt upplýsingum frá svæðismiðstöð björgunarsveita á Hellu. Ekkert hefur enn sést til franska ferðamannsins sem rann ofan í ána og undir ísdyngjuna í gærkvöldi.
Von er á liðsafla frá björgunarsveitum á höfuðborgarsvæðinu nú eftir hádegi, en um 30 manns hafa unnið akkorðsvinnu á vöktum við að moka snjó úr dyngjunni frá því þrjú í nótt, er aðrir þeirra 180 björgunarsveitarmanna sem tekið hafa þátt í aðgerðunum héldu heim í hvíld undir morgun. Baldur Ólafsson, sem er í svæðisstjórn Landsbjargar á Hellu, segir mennina vera orðna úrvinda.
„Við erum að fá á svæðið um 30 manns af höfuðborgarsvæðinu, sem eru þegar lagðir af stað og þeir verða komnir upp eftir um tvöleytið. Fleiri björgunarsveitarmenn eru svo væntanlegir seinna í dag. Þá verður þyrla Landhelgisgæslunnar væntanlega einnig komin í loftið, en hún mun selflytja menn á staðinn.“
Hann segir sprengjusveitina koma aftur á vettvang með þyrlunni og þá muni kafararnir einnig koma til baka á sama tíma.
„Við erum síðan að fara með flotbrúðu sem verður látin fljóta þarna í gegn til að sjá hvar hún stoppar.“
Baldur segir þá björgunarsveitarmenn sem fyrst voru kallaðir út í gær hafa verið komna til byggða í hvíld um fimmleytið í morgun. „Þeir verða kallaðir aftur út um hádegið, en þessir þrjátíu sem nú eru á staðnum eru bara í mokstri á meðan hinir eru í hvíld.“
Björgunarsveitarmennirnir eru enn að vinna í þriðju holunni, en búið er að gera tvær holur sem ná í gegnum ísdyngjuna niður að ánni. „Þeir eru að vinna á ísnum með bensínkeðjusögum, járnkörlum og skóflum. Þetta gengur hægt, en gengur samt þrátt fyrir að vera mikil erfiðisvinna. Við höldum áfram öllu eins og við mögulega getum.“