Forstöðumenn fá afturvirkar hækkanir

Forstöðumennirnir benda flestir á að álag hafi aukist og verkefnum …
Forstöðumennirnir benda flestir á að álag hafi aukist og verkefnum fjölgað. mbl.is/Árni Sæberg

Laun nokkurra nefndarformanna og forstöðumanna ríkisstofnana hækka um tugi prósenta samkvæmt nýjum úrskurði kjararáðs. Mest er hækkunin hjá formanni kærunefndar útlendingamála, eða um 48%, og er hún að einhverju leyti afturvirk frá 1. desember 2014.

Fréttablaðið greindi frá þessu í morgun, en kjararáð úrskurðaði um launin á fundum sínum 23. júní og 6. júlí.

Kjararáð ákvað nýlega að hækka laun allra þeirra sem heyra undir ráðið um 7,15% frá 1. júní.

Feli í sér erfiðar ákvarðanir

Laun Hjartar Braga Sverrissonar, formanns kærunefndar útlendingamála, hækka um 48% að meðtalinni almennu launahækkuninni í júní. Er hækkunin að einhverju leyti afturvirk frá 1. desember 2014.

Frá og með 1. júlí 2016 verða launin hans um 1,37 milljónir króna.

Í úrskurði kjararáðs kemur fram að kærunefndin hafi þróast og vaxið frá því hún tók til starfa í lok árs 2014. Umfang starfseminnar hafi skýrst og málum fjölgað umtalsvert. Hafi það meðal annars leitt til þess að fulltrúum í nefndinni hafi verið fjölgað úr þremur í sjö.

Laun Hjartar Braga Sverrissonar, formanns kærunefndar útlendingamála, hækka mest allra …
Laun Hjartar Braga Sverrissonar, formanns kærunefndar útlendingamála, hækka mest allra og er hækkunin afturvirk að einhverju leyti frá 1. desember 2014.

Í bréfi Hjartar til nefndarinnar segir hann að sú reynsla sem komin sé á starf nefndarinnar og þörf á yfirvinnu formannsins hafi sýnt að mánaðarlaun og einingar séu undir því sem eðlilegt megi teljast fyrir starf af þessu tagi.

Einnig beri að hafa í huga að starfið feli í sér erfiðar ákvarðanir um mikilvæga persónulega hagsmuni fólks sem oft hafi gengið í gegnum atburði sem erfitt sé að lýsa eða skilja. Fjöldi mála og fundatíðni sé langt umfram þær áætlanir sem gerðar hafi verið í upphafi.

Í bréfinu segir að þegar kjararáð tók fyrri ákvörðun sína um laun formannsins hafi ekki verið komin reynsla á vinnuálag hans og þörf á yfirvinnu.

Hækka afturvirkt frá 1. janúar 2015

Laun Haraldar Johannessen ríkislögreglustjóra, Birgis Jakobssonar landlæknis, Braga Guðbrandssonar, forstjóra Barnaverndarstofu, og Karls Gauta Hjaltasonar, skólastjóra Lögregluskóla ríkisins, hækka öll afturvirkt frá 1. janúar 2015.

Laun Haraldar hækka um 29% og verða 1,55 milljónir króna á mánuði. Horfir kjararáð til þeirra breytinga sem gerðar voru á lögregluskipaninni í upphafi árs 2015 og þess innbyrðis samræmis sem kjararáði ber að gæta. Sem fyrr sé annars vegar tekið mið af launakjörum lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og hins vegar af launakjörum ráðuneytisstjóra.

Þá hækka laun Braga og verða um 1,3 milljónir króna á mánuði.

Birgir Jakobsson landlæknir. Kjararáð hefur ekki áður tekið ákvörðun um …
Birgir Jakobsson landlæknir. Kjararáð hefur ekki áður tekið ákvörðun um laun landlæknis. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ekki kemur fram á vef kjararáðs hver laun Birgis og Karls Gauta voru fyrir hækkunina.

Laun Birgis verða um 1,6 milljónir króna á mánuði, en kjararáð hefur ekki áður tekið ákvörðun um laun landlæknis. Horfir ráðið til þeirra breytinga sem orðið hafa á löggjöf og starfsemi embættis landlæknis á undanförnum árum, þar á meðal sameiningar embættisins og Lýðheilsustöðvar.

Þá verða laun Karls Gauta um 1,2 milljónir króna.

Bendir á óvægna fjölmiðlaumfjöllun

Laun Kristínar Völundardóttur, forstjóra Útlendingastofnunar, og Páls Winkel fangelsismálastjóra hækka afturvirkt frá 1. janúar 2016. Laun Kristínar hækka um 29% og verða um 1,3 milljónir króna á mánuði. Í rökstuðningi sínum bendir kjararáð meðal annars á að starfsemi stofnunarinnar hafi vaxið með fjölgun umsókna um alþjóðlega vernd hér á landi auk nýrra verkefna.

Í bréfi sínu til kjararáðs kvartar Kristín sérstaklega undan því sem hún telur vera óvægna fjölmiðlaumfjöllun. Áreiti fjölmiðla utan vinnutíma sé mikið, bæði á kvöldin og um helgar, og hafi aukist ár frá ári samhliða fjölgun verkefna. Starf forstjórans sé því erfitt og mjög íþyngjandi á köflum.

Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar, segir að áreiti fjölmiðla utan vinnutíma …
Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar, segir að áreiti fjölmiðla utan vinnutíma sé mikið.

Aukin umsvif hjá Fangelsismálastofnun 

Kjararáð ákvað forstjóra Fangelsismálastofnunar laun síðast 28. júní 2011. Frá þeim tíma hafa laun hans tekið breytingum í samræmi við almennar ákvarðanir kjararáðs. Breytingar og aukin umsvif í starfsemi Fangelsismálastofnunar gefa tilefni til breytinga á launakjörum hans að gættu því innbyrðis samræmi sem kjararáði ber að hafa að leiðarljósi.

Munu laun hans hækka frá og með 1. janúar 2016 um 35% og verða um 1,3 milljónir króna á mánuði.

Þá úrskurðaði kjararáð einnig um laun nefndarmanna úrskurðarnefndar velferðarmála sem tók til starfa í byrjun ársins.

Laun formannsins, Guðrúnar Agnesar Þorsteinsdóttur, verða tæplega 1,4 milljónir króna á mánuði, en laun þriggja almennra nefndarmanna verða um 1,2 milljónir króna á mánuði.

Lesa má úrskurði kjararáðs hér.

Kjararáð úrskurðaði nýverið um laun ráðuneytis- og skrifstofustjóra í Stjórnarráði Íslands. Nemur launahækkunin á bilinu 28 til 35 pró­sent­um hjá skrif­stofu­stjór­um og 36 til 37 prósentum hjá ráðuneyt­is­stjór­um.

Frétt mbl.is: Embættismenn tekjuhærri en ráðherrar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert