Hyggst stefna Sigríði Björk

Lögreglumaðurinn taldi ákvörðun lögreglustjóra mjög íþyngjandi og þurfti hann að …
Lögreglumaðurinn taldi ákvörðun lögreglustjóra mjög íþyngjandi og þurfti hann að þola tekjuskerðingu á því tímabili sem lausnin náði til. Þá var það mat hans að ákvörðunin fæli í sér álitshnekki fyrir hann sem lögreglumann en hann hafði mikla og langa starfsreynslu innan lögreglunnar og hafði sótt sér mikla sérþekkingu. mbl.is/Eggert

Lögreglumaðurinn, sem lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins vék tímabundið frá störfum eftir að héraðssaksóknari hóf rann­sókn á meint­um brot­um hans í starfi, hyggst stefna lögreglustjóranum, Sigríði Björk Guðjónsdóttur, til greiðslu miskabóta. Þetta staðfestir lögmaður lögreglumannsins, Kristján B. Thorlacius, í samtali við mbl.is.

Innanríkisráðuneytið úrskurðaði fyrr í mánuðinum að lögreglustjóri hafi ekki farið að lögum þegar embættið vék manninum tímabundið frá störfum í upphafi árs en héraðssaksóknari felldi málið niður í síðasta mánuði.

Fól í sér álitshnekki fyrir hann sem lögreglumann

Í úrskurði ráðuneytisins sem mbl.is hefur undir höndum er farið yfir rök lögreglumannsins vegna kærunnar. Þar segir að lögreglumaðurinn hafi talið ákvörðun lögreglustjóra mjög íþyngjandi og þurfti hann að þola tekjuskerðingu á því tímabili sem lausnin náði til. Þá var það mat hans að ákvörðunin fæli í sér álitshnekki fyrir hann sem lögreglumann en hann hafði mikla og langa starfsreynslu innan lögreglunnar og hafði sótt sér mikla sérþekkingu.

Í ljósi þess hversu íþyngjandi ákvörðunin var taldi lögreglumaðurinn að lögreglustjórinn hafi verið bundinn af meðalhófsreglu stjórnsýslulaga þar sem segir að aðeins skuli taka slíka ákvörðun ef lögmætu markmiði hennar er ekki náð með öðru og vægara móti. Eins og kunnugt er var það úrskurður ráðuneytisins að Sigríður Björk hafi brotið meðalhófsregluna þegar manninum var vikið úr starfi.

Að mati lögreglumannsins átti reglan sérlega við í hans tilviki þar sem hann naut ekki andmælaréttar samkvæmt stjórnsýslulögum við ákvörðun lögreglustjóra um lausn um stundarsakir. „Við slíkar aðstæður verði að gera sértaklega ríkar kröfur til lögreglustjóra um vandaða málsmeðferð og undirbúning ákvörðunar,“ segir í rökum lögreglumannsins. Telur lögreglumaðurinn að ekki hafi verið staðið að hinni kærðu ákvörðun með ásættanlegum hætti.

Mest íþyngjandi úrræðið

Í rökum lögreglumannsins er jafnframt bent á að algengt sé að lögreglumenn séu ásakaðir um brot í starfi, m.a. af þeim aðilum sem þeir hafi þurft að hafa afskipti af í störfum sínum. „Samkvæmt upplýsingum frá ríkissaksóknara komi 20–30 mál til embættisins á ári hverju vegna meintra brota lögreglumanna í starfi. Í fæstum þeim tilvikum séu lögreglumenn leystir frá embætti um stundarsakir þótt fyrir liggi að kæran sem slík geti leitt til sviptingar embættis,“ segir í rökum lögreglumannsins. Er talað um þrjú úrræði sem lögreglustjórar hafi gripið til í þeim tilfellum þar sem lögreglumaður hafi verið kærður fyrir brot í starfi. Fyrsta lagi að kæran hafi engin áhrif og lögreglumaður haldi starfi sínu, í öðru lagi að hann sé sendur í leyfi en haldi launum og í þriðja lagi að honum sé vikið frá embætti um stundarsakir. „Þriðja úrræðið sé langviðurhlutamesta og mest íþyngjandi úrræðið sem gripið verði til við þessar aðstæður,“ segir í rökunum.

Bendir hann jafnframt á að yfirleitt sé gripið til viðurhlutaminni úrræða en að víkja úr embætti um stundarsakir.

Ákvörðunin tekin á grundvelli rannsóknar ríkissaksóknara

Í umsögn embættis lögreglustjóra kemur fram að þegar lögreglumanninum var veitt lausn frá störfum hafi legið fyrir að ríkissaksóknari hafi hafið rannsókn á meintum brotum hans. Er bent á að fara þurfi fram mat í hverju einstöku máli um hvort víkja beri starfsmanni frá störfum þegar mál eru til rannsóknar og það sé ekki óalgengt. Er vitnað í tvo hæstaréttardóma frá árunum 2014 og 2015 sem báðir varða brot lögreglumanna í starfi. Var báðum þá veitt lausn frá störfum um stundarsakir á meðan málin voru í rannsókn.

Áréttar lögreglustjóri í umsögn sinni að sú ákvörðun að víkja lögreglumanninum tímabundið frá störfum hafi verið tekin á grundvelli þess að ríkissaksóknari hafi tilkynnt að hann hefði gefið fyrirmæli um lögreglurannsókn á lögreglumanninum vegna rökstuddra grunsemda um brot hans í starfi. Voru þau talin varða við 128. og 136. grein almennra hegningarlaga. „Telur lögreglustjóri það ekki ásættanlegt að láta lögreglumann sem sætir slíkum grunsemdum gegna starfi,“ segir í umsögninni.

Eins og fyrr segir var það niðurstaða ráðuneytisins að fella bæri kærðu ákvörðunina úr gildi og að meðalhófssjónarmiða hafi ekki verið gætt við meðferð málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka