Kafarar ætla að hætta sér undir snjódyngjuna sem talið er að franskur göngumaður hafi runnið undir í Sveinsgili. Alls hafa 218 manns tekið þátt í leitinni fram að þessu. Áfram verður leitað fram á kvöld en hlé verður gert á leitinni í nótt, að sögn Baldurs Ólafssonar í svæðisstjórn Landsbjargar á Hellu.
„Þeir ætla að kafa í holurnar sem við erum búin að gera. Það er búið að koma línum í gegn,“ segir Baldur en kafararnir eru hluti af ellefu manna teymi frá Landhelgisgæslunni og lögreglunni sem komu á staðinn með þyrlu Gæslunnar um kl. 15.
Björgunarsveitarmenn hafa náð að saga þrjár holur í gegnum snjóinn og ísinn og nota menn þær til að reyna að skyggnast um eftir manninum. Nú er unnið að því að stækka holurnar. Þá á að fleyta flotbrúðu undir dyngjuna til að sjá hvar þrengir að til að gefa leitarmönnum betri hugmynd um hvar maðurinn gæti hafa staðnæmst.
Rúmlega þrjátíu manna lið björgunarsveitarmanna kom á staðinn um tvöleytið og leysti af hólmi álíka stóran hóp sem hafði verið að störfum frá því í morgun. Sá er nú á heimleið til að njóta verðskuldaðrar hvíldar en aðstæður hafa verið afar erfiðar.
„Það verður ekki unnið í nótt. Það verður unnið á meðan mannskapur endist og svo verður frí til morguns. Það verður byrjað klukkan átta í fyrramálið,“ segir Baldur.