Kurla ísinn með sprengjunum

Leitarmenn á vettvangi við Sveinsgil.
Leitarmenn á vettvangi við Sveinsgil. Ljósmynd/Landsbjörg

Engin hætta er samfara því að sprengja snjódyngjuna við ána í Sveinsgili, sem erlendi ferðamaðurinn féll ofan í í gærkvöldi að sögn Ásgríms Lárusar Ásgrímssonar, framkvæmdastjóra aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar. Sprengjusveit Landhelgisgæslunnar hefur aðstoðað björgunarsveitarmenn í Sveinsgili við að komast í gegnum snjódyngjuna síðan í gærkvöldi.

„Þetta er sex metra þykkur klaki og þeir hafa verið að nota 200 g hleðslur af TNT-sprengiefni sem kurlar ísinn þannig að björgunarsveitarmenn geti grafið,“ segir Ásgrímur Lárus. Fjórir menn úr sprengjusveitinni, sem einnig er köfunarsveit Landhelgisgæslunnar, fóru á vettvang í gærkvöldi.

„Þeir fóru uppeftir í gær umbeðnir sem kafarar, en það varð fljótt ljóst að það væri nauðsynlegt að sprengja ísinn,“ segir Ásgrímur Lárus og kveður sveitina hafa verið með allan nauðsynlegan búnað til verksins.

„Þeir voru nú í morgun komnir í gegnum ísinn á þremur stöðum vegna smásprenginganna, en eru nú komnir niður í Hrauneyjar til að leggja sig eftir að hafa verið á vettvangi frá því snemma í gærkvöldi.“

Kafarar frá embætti Ríkislögreglustjóra séu ennþá á vettvangi, ef nauðsynlegt reynist að kafa undir ísinn, en óráðið er hvort sprengjusveitin verði aftur kölluð upp í Sveinsgil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert