„Mannskapurinn gjörsigraður“

Björgunarsveitarmennirnir hafa reynt að grafa holur í dyngjuna sem talið …
Björgunarsveitarmennirnir hafa reynt að grafa holur í dyngjuna sem talið er að ferðamaðurinn hafi runnið undir. ljósmynd/Kári Rafn Þorbergsson

Afar erfiðar aðstæður eru fyrir björgunarsveitarmenn að athafna sig við leit að frönskum ferðamanni í Sveinsgili. Flytja þarf búnað um fjörutíu mínútna torfarna leið yfir fjallgarð til að komast á vettvang og segir Baldur Ólafsson í svæðisstjórn Landsbjargar á Hellu mannskapinn á staðnum vera „gjörsigraðan“.

Til stendur að fleyta flotbrúðu undir snjódyngjuna sem talið er að franskur göngumaður hafi runnið undir í gær. Tilgangurinn er að mæla hversu langt er að grynningu þar sem maðurinn gæti hafa stoppað svo björgunarsveitarmenn fái betri hugmynd um hvar þeir eigi að grafa í dyngjuna.

Baldur segir að enn hafi ekki tekist að koma brúðunni og öðrum búnaði á staðinn vegna aðstæðna.

„Það er mjög erfitt að koma tækjum á staðinn. Það er gengið yfir mjög háan fjallgarð sem er á milli giljanna þannig að þetta er erfið aðkoma. Björgunarsveitarmenn eru búnir að vera að bera búnaðinn. Þetta er fjörutíu mínútna gangur úr bílnum með búnaðinn. Þetta eru mjög erfiðar aðstæður og mannskapurinn sem er þarna núna er gersamlega gjörsigraður þannig að við erum að skipta honum út. Þetta er svakalega erfitt,“ segir Baldur.

Veðuraðstæður eru góðar á vettvangi en umhverfið er hins vegar þröngt og erfitt.

Aðstæður á vettvangi eru allar hinar erfiðustu og eru björgunarsveitarmenn …
Aðstæður á vettvangi eru allar hinar erfiðustu og eru björgunarsveitarmenn á staðnum sagðir úrvinda. ljósmynd/Kári Rafn Þorbergsson

Gera líklega hlé á leitinni í nótt

Björgunarsveitarmenn frá öllu Suðurlandi og Suðvesturlandi eru á leiðinni á staðinn til að leysa þá sem eru þar að störfum af hólmi. Á meðal þeirra sem eru á leiðinni er hópur björgunarsveitarmanna sem voru við leitina fram til klukkan fimm í morgun. Baldur segist vonast til að um fimmtíu manns verði við leitina eftir vaktaskiptin.

Þyrla Landhelgisgæslunnar átti að leggja af stað frá Reykjavík klukkan tvö. Um borð eru meðal annars kafarar og sprengjusérfræðingar sem eiga að aðstoða við leitina.

Ekki er búið að ákveða hvort leit verður haldið áfram í nótt. Baldur segir líklegt að tekið verði hlé í nótt en það sé ekki endanlega ákveðið. Leitinni yrði þá haldið áfram af fullum krafti í fyrramálið.

Björgunarsveitarmenn skoða opið þar sem talið er að franski göngumaðurinn …
Björgunarsveitarmenn skoða opið þar sem talið er að franski göngumaðurinn hafi runnið undir dyngjuna. ljósmynd/Kári Rafn Þorbergsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert