Í ár eru 15 ár síðan Kristín Gerður Guðmundsdóttir kvaddi aðeins 31 árs að aldri. Berglind Ósk Guðmundsdóttir, systir Kristínar Gerðar, hleypur Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka í minningu systur sinnar. Berglind safnar styrkjum fyrir Kristínarsjóð, sjóð sem stofnaður var af Stígamótum og er ætlaður konum sem eru á leið úr vændi eða mansali og vilja byggja sig upp á nýjan leik.
„Sjóðurinn er í raun stofnaður í minningu systur minnar,“ segir Berglind en henni þótti við hæfi að hlaupa fyrir sjóðinn í ár þar sem að í apríl voru 15 ár frá því að systir hennar fyrirfór sér.
„Mig langaði að halda minningu systur minnar á lofti. Þetta er rosalega viðkvæmt málefni náttúrlega,“ útskýrir Berglind en henni þykir mikilvægt að vekja betur athygli á málinu. „Þetta er hérna í gangi á Íslandi og mér fannst bara fínt að vekja máls á því,“ segir Berglind.
Berglind telur að yfirleitt geri fólk sér ekki almennilega grein fyrir því að vændi og mansal sé yfir höfuð til á Íslandi en sú er vissulega raunin. Hún telur þó að staðan í dag sé örlítið betri en þegar systir hennar upplifði þetta á sínum tíma. „Þessar konur þurfa aðstoð til þess að komast aftur út í lífið. Og þá er mikilvægt að það sé einhver sem getur aðstoðað þær og þar koma Stígamót sterkt inn,“ útskýrir Berglind.
Núna er Kristínarsjóður svo gott sem tómur og taldi Berglind því ekki síður brýnt að safna styrkjum fyrir sjóðinn. Enn sem komið er hefur ekki safnast mikið af framlögum en Berglind er gríðarlega þakklát fyrir þau fjárframlög sem tekist hefur að safna.
Spurð um minningar um systur sína segir Berglind hana hafa verið manneskju sem gerði alltaf allt alla leið. „Það var alveg sama hvort það var að vera afrekskona í sundi, að vera verðlaunamaður í ræðukeppnum eða að vera dópisti. Það var alveg sama hún fór alltaf alla leið, allt sem hún ætlaði sér,“ segir Berglind sem saknar systur sinnar á hverjum degi. Kristín var ekki síður öflug þegar hún ákvað að hætta í neyslu en hún var búin að vera edrú í 6 ár þegar hún lést. „En eftirköstin voru of mikil,“ segir Berglind, að vera laus úr neyslu dugði ekki til.
„Ég hleyp með sorg í hjarta,“ segir Berglind og bætir við að líf systur hennar hafi verið þannig að það voru of mörg ör á sálinni svo hún gæti lifað með þeim. „En ég er bara glöð að geta hjálpað og getað einhvern veginn haldið hennar minningu á lofti því hún hefði viljað þetta,“ segir Berglind.
Þetta er í annað sinn sem Berglind hleypur í Reykjavíkurmaraþoninu, síðast tók hún þátt 2014 og síðast hljóp hún fyrir Einstök börn og fyrir son sinn.
Fyrir hlaupið í ár hefur Berglind æft markvisst, verið dugleg að undirbúa sig og er komin í hlaupahóp. „Ég ætla að hlaupa tíu kílómetra, ég ætla ekki að labba, og ég ætla að gera það á eins góðum tíma og ég get,“ segir Berglind en hún kveðst þar að auki hafa háleit markmið sem hún ætlar að halda út af fyrir sig.
Á söfnunarsíðunni vitnar Berglind Ósk í orð Kristínar Gerðar systur sinnar og „sendir ykkur knús í hjartað og faðmlag í sálina,“ þakklát fyrir allan þann stuðning og þau framlög sem hún nær að safna fyrir Kristínarsjóð.
Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka fer fram 20. ágúst næstkomandi. Hægt er að heita á Berglindi í gegnum heimasíðu Hlaupastyrks.