Það var ekki fyrr en farið var að sprengja ísinn í snjódyngjunni að björgunarsveitarmenn gátu farið að moka sig í gegnum ísinn, segir Sigurgeir Guðmundsson í svæðisstjórn björgunarsveita á Hellu, en sprengjusveit Landhelgisgæslunnar hefur tekið þátt í leit að erlenda ferðamanninum sem féll ofan í á við Sveinsgil norðan Torfajökuls í gærkvöldi.
Nýr hópur björgunarsveitarmanna frá Hellu kom inn í Landmannalaugar nú undir morgun til að taka þátt í leitinni, en á annað hundrað björgunarsveitarmenn hafa verið við leit á svæðinu í nótt við erfiðar aðstæður, þar sem unnið er á vöktum. Sigurgeir segir þá björgunarsveitarmenn frá Hellu, sem voru á vettvangi í gærkvöldi og nótt, nú vera komna aftur á Hellu. „Menn eru búnir á því eftir moksturinn,“ segir hann.
Snjódyngjan er um sex metra þykk og um 45 metrar að flatarmáli. Búið er að grafa tvær holur í gegnum hana og niður að ánni og unnið er að greftri þriðju holunnar. „Snjórinn er alveg pressaður saman og hann er það stífur að það er ekki hægt að reka snjóflóðastöng í hann,“ segir Sigurgeir. „Þeir sögðu mokararnir að það hefði ekki verið fyrr en eftir að það var farið að sprengja að það fór loksins eitthvað að gerast.“
Um 35 manns vinna nú að leit og greftri á vettvangi. Stór hópur bíður síðan inni í Landmannalaugum eftir að vera kallaður út, en um 8,5 km torfarin leið er á milli Landmannalauga og Sveinsgils. Sigurgeir segir menn endast skammt við moksturinn, sem sé mikil erfiðisvinna. Aðrir ýmist bíða og eru tilbúnir að taka við mokstrinum eða leita og eru á vakt við ána, sem er um hnédjúp, en lítið sem ekkert loftrými er á milli hennar og snjódyngjunnar. „Menn endast um 20-30 mínútur í mokstrinum í einu,“ segir hann, en þeir sem voru að koma til baka segja mér að það sé hörkulið í mokstrinum núna.“
Ekki liggur enn fyrir hvort fleiri björgunarmenn verði kallaðir út til að taka þátt í aðgerðunum.