Talið er að björgunarsveitarmenn sem taka þátt í leit að erlendum ferðamanni sem féll ofan í á við Sveinsgil verði orðnir um 300 talsins þegar líður á nóttina. Búið er að kalla á aukamannskap frá Reykjanesi, Akranesi, Borgarnesi og höfuðborgarsvæðinu en fyrsta útkallið kom um klukkan 18 í kvöld.
Fyrri frétt mbl.is: Notast við keðjusagir og skóflur
Fyrri frétt mbl.is: Féll í á við Sveinsgil
Að sögn Svans Lárusar Sævarssonar í svæðisstjórn á staðnum eru nú rétt tæplega 60 manns að moka snjó en talið er að maðurinn sé undir snjóbrúnni sem er yfir ánni. Hann segir svæðið í sjálfu sér ekki stórt en mjög mikið. „Við erum að moka einhverjum einbýlishúsum af snjó hérna með handafli,“ segir Svanur í samtali við mbl.is.
Hann segir aðstæður leiðinlegar, grenjandi rigning sé á svæðinu, sem sé þó aðeins að slota. Þá er einnig að kólna og er vonast eftir því að aðstæður verði nú þolanlegri.
Svanur gerir ráð fyrir að það verði leitað áfram inn í nóttina.
Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst klukkan 18.07 beiðni frá lögreglu um aðstoð þyrlu vegna ferðamanns. Samferðamanni hans hafði tekist að láta vita en þeir voru á gangi yfir ísbrú þegar slysið varð.
Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LIF, var þegar kölluð út og flaug á vettvang. Þá var ekki nákvæmlega vitað hvar ferðamennirnir væru staddir en þyrlan fann mjög fljótlega þann sem náð hafði að tilkynna slysið og þar með var staðsetning slysstaðar kunn.