Fleiri björgunarsveitarmenn kallaðir út

Lögreglumenn og björgunarsveitarmenn leggja á ráðin við leitina í Sveinsgili.
Lögreglumenn og björgunarsveitarmenn leggja á ráðin við leitina í Sveinsgili. Ljósmynd/Landsbjörg

Kallað hefur verið eftir fleiri björgunarsveitarmönnum til að taka þátt í leitinni að erlenda ferðamanninum sem féll ofan í á við Sveinsgil norðar Torfajökuls í gærkvöldi. „Það er verið að kalla út viðbótarmannskap frá höfuðborgarsvæðinu, Árnessýslu og Akranesi,“ segir Sigurgeir Guðmundsson, í svæðisstjórn björgunarsveita á Hellu.

„Það er mannskapur frá þessum stöðum þegar á svæðinu en við viljum fjölga leitarmönnum enn frekar. Síðan verður aftur gengið að Rangvellingum upp úr hádegi þegar þeir hafa fengið smáhvíld.“ Hann segir þó ekki liggja fyrir hve margir eigi eftir að bætast við hóp leitarmanna, sem nú eru um 180 talsins.

„Við bara klárum þennan skafl, hvernig sem við förum að því,“ segir Sigurgeir og kveður björgunarsveitarmenn á vettvangi hafa óskað eftir að fjölgað væri í björgunarliðinu, svo fleiri gætu unnið að greftrinum hverju sinni, en mjög erfiðlega gengur að grafa í gegnum harðan ísinn og hefur sprengjusveit Landhelgisgæslunnar aðstoðað leitarmenn með því að sprengja holur í hann.

Unnið hefur verið á vöktum og hefur stór hópur björgunarsveitarmanna jafnan beðið inni í Landmannalaugum á meðan um 35 manns hafa grafið sig í gegnum sex metra þykka snjódyngjuna. 

„Ef ekkert finnst í dag má búast við að við gefum mönnum hvíld næstu nótt og vöktum þá bara svæðið. Síðan verði haldið áfram þegar menn eru úthvíldir,“ segir Sigurgeir. „Það þýðir ekkert að láta menn brenna út trekk í trekk.“ Hann segir menn líka þurfa að gæta eigin öryggis og það sé nokkuð sem allir björgunarsveitarmen þurfi að hafa hugfast. „Síðan eru menn hafðir í línum þegar þeir fara ofan í einhverjar holur niður að vatnsborðinu ef skipuðum öryggisverði sýnist svo.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert