Villikettir leggja til lausn

Tveir af köttunum sem Villikettir hafa nú þegar bjargað úr …
Tveir af köttunum sem Villikettir hafa nú þegar bjargað úr húsinu. Þeir leita nú að heimili auk þess sem leitað er að fósturfjölskyldum fyrir kettina sem til stendur að bjarga. Ljósmynd/ Villikettir

Félagið Villikettir hefur lagt til lausnartillögu í máli kattanna hundrað sem til stendur að MAST lógi í næstu viku. Bjóðast Villikettir til að sjá um að bæta aðstæður kattanna og finna þeim heimili gegn því að lóguninni verði frestað og sá kostnaður sem stofnunin sparar vegna þessa renni til Villikatta.

Í erindi til stofnunarinnar sem einnig var sent á mbl.is býðst félagið til að taka að sér allar læður með kettlinga hið fyrsta, finna þeim fósturheimili og síðar varanleg heimili. Eins býðst félagið til að taka veik dýr og koma þeim til læknis strax ef þörf er á.

„Við bjóðumst til að láta gelda/taka úr sambandi allar kisur sem eftir eru á staðnum til að koma í veg fyrir meiri fjölgun og skila þeim síðan aftur á staðinn og hafa milligöngu um að finna þeim dýrum varanleg ný heimili. Við bjóðumst til að útvega mat og sand fyrir þau dýr sem eftir eru á heimilinu og sjá til þess að þau fái læknisþjónustu ef þörf er á,“ stendur í erindinu.

Í staðinn óskar félagið eftir því að MAST fresti aflífun dýranna og styrki Villiketti til verkefnisins með því fjármagni sem annars hefði verið varið í að aflífa dýrin sem félagið segir vera 116 alls.

Rúmlega 100 kettir voru í húsinu þegar félagskonur í Villiköttum komu þar fyrst að og sjö hundar. Þær hafa þegar tekið að sér 57 og hafa 10 kettlingar fæðst í þeirra umsjá. Dýrunum á heimilinu hefur nú fjölgað um 16 kettlinga auk þess sem nokkrar læðanna eru kettlingafullar.

 Frek­ari upp­lýs­ing­ar um Villiketti og hvernig styðja má starfið má finna með því að smella hér.

Hægt er að styrkja fé­lagið í gegn­um reikn­ings­núm­erið: 0111-26-73030 og  kenni­tölu: 710314-1790.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert