Tæpur þriðjungur björgunarsveita tók þátt

Björgunarsveitarmenn að störfum í Sveinsgili við mjög erfiðar aðstæður.
Björgunarsveitarmenn að störfum í Sveinsgili við mjög erfiðar aðstæður. Ljósmynd/Flugbjörgunarsveitin á Hellu

Guðbrandur Örn Arnarson, björgunarsveitarmaður hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg, segir nokkuð vel hafa gengið að kalla út björgunarsveitarmenn til að taka þátt í leitinni að franska ferðamanninum sem féll ofan í á í Sveinsgili á þriðjudag. Tæpur þriðjungur allra björgunarsveita á landinu tók þátt í aðgerðunum, en maðurinn fannst látinn í ánni um hálftíu í gærkvöldi.

„Þetta gekk nokkuð vel. Það er að sjálfsögðu alltaf erfiðara að kalla út fólk yfir hásumarleyfistímann, en þetta tókst allt með samstilltu átaki,“ segir Guðbrandur Örn. Björgunarsveitir frá suðaustur- og að suðvesturhorni landsins hafi tekið þátt í aðgerðunum.

Skoðuðu að fljúga með fleiri menn frá Akureyri

„Þarna voru björgunarsveitir frá Vestmannaeyjum, Akranesi, Borgarfirði, Selfossi, Hveragerði, Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu,“ segir Guðbrandur Örn. Síðan hafi verið hafin skoðun í samstarfi við Landhelgisgæsluna á því að flytja mannskap annars staðar að af landinu, t.a.m. frá Akureyri, ef leit hefði haldið áfram í dag.

Guðbrandur Örn segir 31 björgunarsveit hafa komið að aðgerðunum og er það tæpur þriðjungur allra björgunarsveita á landinu.

„Það voru að jafnaði 30-50 manns á vettvangi á hverjum tíma fyrir sig. Í heild hafa því 233 björgunarsveitar- og lögreglumen komið að aðgerðinni,“ segir hann og bætir við að líklega megi bæta 20-30 manns við þá tölu með mannskap frá Landhelgisgæslunni, slökkviliði og embætti Ríkislögreglustjóra. „Þetta var afbragðsgóð samvinna allra aðila og menn unnu sem einn að því marki einu að finna manninn.“

Guðbrandur Örn segir aðgerðina vissulega hafa verið umfangsmikla, en hún sé þó ekki með þeim stærstu. „Við notuðum 46 flutninga- og farartæki,“ segir hann. „Þar af voru tvær vörubifreiðir, sexhjól, fjórhjól, fólksflutningabílar og 33 jeppar. Það var full þörf á öllum þessum tækjum, enda erfitt aðgengi að vettvangi og þungur búnaður sem þurfti að koma á staðinn. Þarna vann hópurinn saman sem einn hugur.“

Björgunarsveitir frá suðuaustur að suðvesturhorni landsins komu að leitinni að …
Björgunarsveitir frá suðuaustur að suðvesturhorni landsins komu að leitinni að franska ferðamanninum. Ljósmynd/Flugbjörgunarsveitin á Hellu

Tóku þátt í björgunaraðgerðum á Haítí

Hluti búnaðar björgunarsveitarmannanna var þó nokkuð óvenjulegur, en m.a. voru notaðar keðjusagir og sprengiefni til að vinna á ísnum. „Keðjusagir eru vissulega óvenjulegur búnaður, en þetta er samt búnaður sem björgunarsveitir eiga margar hverjar. Sérstaklega þær sem hafa sérhæft sig í rústabjörgun, því þar er þetta fullkomlega eðlilegur búnaður.“

Guðbrandur Örn segir að meðal þeirra sem tóku þátt í aðgerðunum í Sveinsgili hafi verið menn sem tóku þátt í björgunaraðgerðum á Haítí eftir jarðskjálftana þar 2010.  

„Þarna voru menn sem hafa mikla þekkingu á því hvernig þessi búnaður er notaður. Það er nefnilega enginn munur á því að ná manni undan nokkrum tonnum af klaka eða sækja manneskju inn í byggingu sem hefur hrunið af einhverjum orsökum,“ segir Guðbrandur Örn og minnir á að Íslendingar búi við jarðskjálftaógn.

Margar mismunandi aðferðir voru notaðar við leitina að franska ferðamanninum. „Menn kafa þar sem þeir geta, síðan er þetta oft sambland af því að að skoða einhver svæði og útiloka þau þar með og að grafa á þeim svæðum sem þykja líkleg. Þetta er í raun ekkert ólíkt því að finna mann í snjóflóði, nema hvað að í þessu tilfelli var ekki hægt að nota snjóflóðastangir þar sem snjórinn var bæði of djúpur og of harður.“

Fékk hjartaáfall á vettvangi

Bregðast þurfti við veikindum hjá einstaklingum sem aðstoðuðu við björgunaraðgerðina í tveimur tilvikum. Guðbrandur Örn segir annað tilvikið hafa verið ótengt björgunaraðgerðunum, en staðfestir að í hinu tilvikinu hafi einstaklingur fengið hjartaáfall í nágrenni björgunarvettvangs og hafi hann verið fluttur á brott með sjúkraflugi.

Hann segir ekki hægt að segja til um hvort erfiðið við björgunaraðgerðirnar hafði valdið áfallinu, en leitin að franska ferðamanninum var mjög krefjandi. Guðbrandur Örn segir andrúmsloft á vettvangi engu að síður hafa verið mjög yfirvegað, enda hafi björgunarsveitarmennirnir sem að aðgerðunum komu allir verið þaulvanir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert