„Hann hélt bara áfram og kláraði sitt“

„Hann hélt áfram og kláraði sitt, kyssti mig á ennið …
„Hann hélt áfram og kláraði sitt, kyssti mig á ennið og sagði: Æ, sorrí. Ég var bara svona graður,“ segir eitt fórnarlambið í myndbandinu. Skjáskot úr myndbandinu.

Frásagnir ungra kvenna sem hafa lent í kynferðislegu ofbeldi eru í aðalhlutverki í nýju myndbandi sem nemendur við Kvennaskólann í Reykjavík bjuggu til í tilefni Druslugöngunnar sem er haldin seinna í mánuðinum. Myndbandið heitir „Druslur tala“ og er afrakstur samstarfs femínistafélags Kvennaskólans og myndbandanefndar nemendafélagsins. Formaður femínistafélagsins, sem er einnig í myndbandanefndinni, segir í samtali við mbl.is að það hafi alltaf verið í myndinni að láta hópana tvo starfa saman.

Gangan orðin eðlilegur partur af sumrinu

„Við fengum þá hugmynd að gera myndband fyrir Druslugönguna þar sem okkur öllum finnst mjög mikilvægt að tala um hana. Við vorum svo ung þegar hún var haldin fyrst og því er hún orðin eðlilegur partur af sumrinu hjá okkur flestum,“ segir Kristjana Torfadóttir, formaður femínistafélags Kvennaskólans, í samtali við mbl.is.

Eins og fyrr segir byggist myndbandið á frásögnum fórnarlamba kynferðislegs ofbeldis og að sögn Kristjönu gæti verið erfitt fyrir suma að hlusta á konurnar tala. Í myndbandinu koma einnig fram krakkar úr Kvennaskólanum sem vildu koma og sýna stuðning í verki.

„Umræðan um kynferðislegt ofbeldi er að opnast. Við þekkjum flest einhvern sem hefur lent í kynferðislegu ofbeldi og því teljum við að við getum talað mjög opinskátt um það. Mér finnst það allavega vera menningin hjá okkar aldurshóp,“ segir Kristjana.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka