Druslugangan verður gengin í sjötta sinn hinn 23. júlí næstkomandi. Yfirlýst markmið göngunnar er að útrýma kynferðisofbeldi, styðja við þolendur kynferðisofbeldis og ítreka að klæðnaður, hegðun eða fas þolenda er aldrei afsökun fyrir slíkum glæpum. Í ár er kastljósinu sérstaklega beint að mikilvægi fyrirbyggjandi aðgerða, forvörnum og fræðslu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá skipuleggjendum göngunnar.
Í fyrra mættu um 15.000 manns í gönguna og er það von skipuleggjenda að enn fleiri sýni þolendum kynferðisofbeldis stuðning í ár og gangi fyrir breyttu samfélagi. Fólkið sem mætir í Druslugönguna er þverskurður íslensks samfélags. „Í hana mætir fólk af öllum kynjum, á öllum aldri og sýnir í verki samstöðu með þolendum kynferðisofbeldis,“ segir í tilkynningu. „Með Druslugöngunni skapast einnig rými til að ræða við fólkið í kringum okkur. Tala við börnin okkar og fræða í nærumhverfi okkar. Aukin umræða er eina leiðin til að útrýma ofbeldinu sem hefur þrifist í þögninni allt of lengi.“
Í tilkynningunni kemur fram að það sé einlæg trú þeirra sem skipuleggja gönguna að með þessari baráttu er ekki aðeins verið að hjálpa þeim sem orðið hafa fyrir ofbeldi heldur einnig komið í veg fyrir það.
„Á síðustu árum hefur orðið gríðarleg vakning í samfélaginu um kynferðisofbeldi og afleiðingar þess. Þögnin hefur verið rofin af þúsundum einstaklinga sem hafa varpað ljósi á hversu gríðarlega stórt samfélagsvandamál kynferðisofbeldi er.“
Þá kemur jafnframt fram að nauðsyn þess að ráðast í fyrirbyggjandi aðgerðir til að sporna við ofbeldinu verði augljósari með hverju árinu sem líður.
„Það er von skipuleggjanda göngunnar að á næstu vikum bregðist samfélagið og stjórnvöld við þessari þörf með aukinni umræðu og aðgerðum,“ segir í tilkynningunni.
Druslugangan hefur framleitt örskýringarmyndbönd með það að markmiði að fræða, breyta orðræðu og koma í veg fyrir ofbeldi.
Í myndböndunum útskýra Þorsteinn Bachmann, Dóra Takefusa, Ævar vísindamaður, María Guðmundsdóttir, Stefán Gunnar Sigurðsson og Margrét Erla Maack hugtök sem oft vefjast fyrir fólki og fyrirbyggja ofbeldi með fræðslu. Reynt er eftir fremsta megni að útskýra hvers vegna baráttan gegn kynferðisofbeldi er mikilvæg og reynt að fyrirbyggja ofbeldi með fræðslu. Með myndböndunum vill Druslugangan leggja sitt af mörkum til að auka fræðslu og forvarnir og vekja athygli á mikilvægi þeirra. Það sem meðal annars er tekið fyrir er stafrænt kynferðisofbeldi, ofbeldi gegn körlum og druslusmánun.
Einkennisorð göngunnar í ár eru „Ég er ekki ofbeldið sem ég varð fyrir” og „Þú ert sama manneskjan fyrir mér.” Með þessu er tekið á algengri tilfinningu þolenda um breytta sýn þeirra og annarra á sjálfa sig eftir að hafa orðið fyrir ofbeldi og ítrekað að skömmin er ekki þolenda að bera.
Eins og fyrr segir fer Druslugangan fram 23. júlí. Hún fer af stað klukkan 14 frá Hallgrímskirkju en gengið verður í átt að Austurvelli þar sem við taka ræðuhöld og tónleikar.