Björgunarsveitarmenn voru um hálftíma að komast að franska ferðamanninum og koma honum upp úr ánni eftir að búið var að staðsetja hann. Maðurinn var skorðaður á botni árinnar og var látinn er að var komið. Hans hafði verið leitað frá því hann féll ofan í á í Sveinsgili á þriðjudag.
Þorgrímur Óli Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á Suðurlandi, segir manninn hafa verið fluttan með þyrlu Landhelgisgæslunnar að Hrauneyjum þar sem lögregla tók við honum og fór með hann á lögreglustöðina á Selfossi. Þar framkvæmdi læknir líkskoðun og var hann úrskurðaður látinn um miðnætti í gær. Aðgerðum á vettvangi var lokið um hálftvöleytið í nótt og voru síðustu björgunarsveitamenn komnir til byggða undir morgun.
Nafn mannsins, sem var fæddur 1989, fæst ekki gefið upp að svo stöddu. Franska sendiráðið og alþjóðadeild Ríkislögreglustjóra hafa milligöngu um samskipti við fjölskyldu mannsins.
Samferðamaður mannsins, sem einnig lenti í ánni en komst á land og gat tilkynnt um slysið, er farinn af landi brott að sögn lögreglu.