Þrettán Íslendingar á heimsleikunum

Katrín Tanja eftir að ljóst var að hún hafði sigrað …
Katrín Tanja eftir að ljóst var að hún hafði sigrað á heimsleikunum í crossfit 2015. Ljósmynd/Milisa Smith

Alls munu 13 íslenskir keppendur auk tveggja varamanna etja kappi á heimsleikunum í crossfit sem hefjast í Los Angeles í Bandaríkjunum í næstu viku. Það er til mikils að vinna en auk þess að eiga möguleika á að vinna sér nafnbótina hraustasta kona eða hraustasti maður heims, nemur verðlaunafé alls 2,2 milljónum dollara eða tæpum 270 milljónum íslenskra króna.

Í einstaklingskeppni kvenna eru íslenskir fulltrúar fjórir talsins. Þær Katrín Tanja Davíðsdóttir, Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir, Annie Mist Þórisdóttir og Þuríður Erla Helgadóttir eru meðal þeirra sem munu keppast um titilinn hraustasta kona heims.

Í karlaflokki er það Björgvin Karl Guðmundsson sem freistar þess að verða hraustasti maður heims og þá keppir Haraldur Holgersson fyrstur Íslendinga í unglingaflokki á leikunum.

Hilmar Þór Harðarson er einnig meðal keppenda á heimsleikunum en hann keppir í master-flokki karla 55 til 59 ára ásamt 19 öðrum.

Eitt lið skipað Íslendingum

Lið CrossFit XY öðlast í ár í fyrsta skiptið þátttökurétt í liðakeppni heimsleikanna en undanfarin ár hefur CrossFit Reykjavík átt lið í keppninni. Lið CrossFit XY er eina liðið skipað Íslendingum sem tekur þátt í ár en liðið skipa þau Árni Björn Kristjánsson, Hilmar Arnarson, Hjördís Óskarsdóttir, Sigurður Þrastarson, Sólveig Sigurðardóttir og Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir. Varamenn eru þau Ingimar Jónsson og Sandra Helgadóttir.

Flestir keppendur eru þegar haldnir utan en Árni Björn Kristjánsson, stöðvarstjóri CrossFit XY, segir að næstu dagar verði nýttir undir stífar æfingar og til að venjast hitanum. „Svo eru þetta tveir rólegir dagar og svo byrjar keppnin væntanlega miðvikudag eða fimmtudag,“ segir Árni í samtali við mbl.is. 

Keppendur þurfa að skrá sig inn á þriðjudaginn í næstu viku en keppnin stendur formlega yfir 19.–24. júlí í StubHub-Center í Carson í Kaliforníu. 

Uppfært 15. júlí 2016:

Fréttin hefur verið uppfærð til að endurspegla réttan fjölda þátttakenda.

Svanhildur, Hjördís, Sigurður og Sólveig úr liði CrossFit XY.
Svanhildur, Hjördís, Sigurður og Sólveig úr liði CrossFit XY. mynd/CrossFit XY
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert