Seibel-fjölskyldan, sem var vísað úr landi í apríl síðastliðnum, býr í klukkutíma fjarlægð í lest frá Nice þar sem árásin var gerð í gærkvöldi. Fjölskyldan var á gangi á sama svæði, aðeins klukkutíma áður en árásarmaðurinn réðst til atlögu.
Í tilefni þjóðhátíðardags Frakka ákváðu þau að fara í lest til Nice og spóka sig um. „Við gengum um borgina, borðuðum ís og fylgdumst með Frökkum fagna þjóðhátíðardeginum,“ segir Irina Seibel í samtali við mbl.is.
Seibel-fjölskyldan kemur frá Úsbekistan en þaðan flúði hún vegna trúarofsókna. Fjölskyldan bjó í Njarðvík í um átta mánuði en var vísað úr landi án þess að umsókn þeirra væri tekin til meðferðar hjá Útlendingastofnun. Fjölskyldan sótti um hæli í Frakklandi í maí síðastliðnum.
„Um kvöldið fréttum við að það ætti að vera flugeldasýning en síðasta lestin heim átti að fara klukkan 20.30 þannig að við höfðum ekki tíma til að sjá flugeldasýninguna. Eftir að við vorum komin heim og búin að koma börnunum í háttinn sáum við á netinu að þessir hræðilegu atburðir hefðu gerst á staðnum þar sem við höfðum verið á gangi rúmum klukkutíma áður,“ greinir hún frá. „Það er hræðilegt að hugsa til þess að ef lestinni hefði seinkað þá hefðum við líklega aldrei snúið heim.“
Irina segist vera hrædd við að búa í Frakklandi, enda hafi um tíu hryðjuverkaárásir verið gerðar þar síðasta árið. „Við yfirgáfum Úsbekistan til að finna öruggan stað fyrir okkur en núna erum við aftur komin til hættulegs lands þar sem sprengjur geta sprungið hvenær sem er. Við þorum varla að fara út úr húsi lengur.“
Hún kveðst vera þakklát hjálpinni sem fjölskyldan hefur fengið frá vinum sínum á Íslandi en styrktarreikningur var stofnaður eftir að þau voru send úr landi. „Ég þakka guði á hverjum degi fyrir vini okkar á Íslandi og fólkið sem sendi okkur peninga.“