Ákvörðun verður tekin á mánudag

Ljósmynd/Villikettir

Villikettir sóttu í gær 19 ketti til viðbótar í húsnæðið þar sem fleiri tugir katta höfðust við við slæmar aðstæður en þegar hafði 57 kisum verið bjargað. Matvælastofnun vísar því á bug að stofnunin muni farga dýrunum án þess að skoða önnur úrræði.

„Við náðum í læður sem voru með kettlinga og tvær læður sem við töldum vera kettlingafullar og önnur er komin langt á leið,“ segir Arndís Björg Sigurgeirsdóttir hjá Villiköttum í samtali við mbl.is. Meðal kattanna var einn veikur af lungnabólgu sem kominn er undir hendur dýralæknis.

„Við bíðum eftir svörum frá MAST,“ segir Arndís. „Það eru allir í sumarfríi hjá Matvælastofnun og það er ekki hægt að taka ákvörðun um neitt,“ segir Arndís en í dag rennur út frestur eigandans til að koma köttunum fyrir annars staðar.

Villikettir hafa reynt hvað þeir geta til að bjarga kisunum.
Villikettir hafa reynt hvað þeir geta til að bjarga kisunum. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Einnig voru sóttir fjórir hundar sem voru í húsinu en tveir íslenskir hundar verða áfram hjá eiganda. Hundasamfélagið tók við hundunum fjórum og fóru þeir allir í læknisskoðun í gær og fara svo á fósturheimili að sögn Arndísar.

Hún segir að erfitt sé að segja nákvæmlega til um fjölda þeirra katta sem enn eru í húsinu en telur þá vera milli 30 og 40 talsins. „Það var allt annað líf að koma þarna í gær,“ segir Arndís, „það var enginn köttur svona grindhoraður eins og þeir litu út fyrst,“ enda auðveldara að fæða 40 ketti en 100. 

Flestir kattanna eru farnir að braggast.
Flestir kattanna eru farnir að braggast. Ljósmynd/Villikettir

Arndís segir eigandann miður sín vegna málsins og vilji auðvitað köttunum það besta, ástandið hafi aftur á móti farið úr böndunum og við því verði að bregðast. „Það eina sem skiptir hana máli er að kettirnir fái að lifa og komist á gott heimili,“ segir Arndís.

„Við höfum ráðið við þetta með hjálp almennings,“ segir Arndís, það skjóti aftur á móti skökku við að sú ríkisstofnun sem annast velferð dýra stóli á framlag félagasamtaka og einstaklinga í sjálfboðavinnu og bregðist því ekki við með almennilegum hætti.

„Það sem hjálpar okkur eru þessar fjölskyldur sem eru tilbúnar að taka að sér og fóstra,“ segir Arndís en fjöldi fólks hefur boðið fram hjálparhönd í kjölfar umfjöllunar um málið. 

Ekki víst að köttunum verði lógað

„Við erum búin að bjóða MAST þá málamiðlun að við munum gelda kettina og koma þeim aftur í hús,“ segir Arndís en í staðinn yrði MAST að leggja þeim til í það minnsta þann kostnað sem nemur aflífun og urðun dýranna. Fram hefur komið að líklegt þyki að MAST hafi fá úrræði önnur en þau að láta lóga dýrunum. 

Þessu vísar Aðal­steinn Sveins­son, eft­ir­lits­dýra­lækn­ir á Suður­nesj­um og tíma­bund­inn staðgeng­ill héraðsdýra­lækn­is, á bug. 

„Málið er í vinnslu og ég reikna með að það verði strax í byrjun næstu viku farið í eftirlitsferð til þess að kanna hvort hún [eigandi] hafi uppfyllt ákveðin skilyrði sem voru sett fram eftir síðustu eftirlitsferð,“ segir Aðalsteinn í samtali við mbl.is. Í framhaldi af því verði tekin ákvörðun um hvað gerist næst.

„Það er reynt að koma dýrunum eitthvað annað og koma þeim lífs út úr þessu,“ segir Aðalsteinn en hins vegar sé aldrei hægt að útiloka hinn möguleikann, að einhverjum dýranna verði lógað. Hann kveðst að öðru leyti lítið þekkja til málsins sem er á könnu héraðsdýralæknis og búfjáreftirlitsmanns sem bæði eru í fríi en koma aftur til vinnu á mánudag.

Síðan Villikettir fyrst komu á staðinn hafa bæst við að …
Síðan Villikettir fyrst komu á staðinn hafa bæst við að minnsta kosti 16 kettlingar. Ljósmynd/Villikettir

„Reyndar er málið þannig vaxið að þegar það kom inn á borð Matvælastofnunar voru Villikettir búnir að taka öll verstu tilvikin út úr þessu húsnæði,“ segir Aðalsteinn og því hafi MAST ekki gripið til annarra ráðstafana en þeirra að setja eiganda ákveðnar kröfur í kjölfar eftirlitsferða á staðinn.

„Sá frestur er um það bil að renna út, þá verður farin önnur eftirlitsferð og síðan verður tekin ákvörðun að henni lokinni,“ segir Aðalsteinn og má því búast við að málið skýrist enn frekar eftir helgi.

Spurður hvort MAST hyggist ganga að tilboði Villikatta segist Aðalsteinn ekki geta sagt til um það. „Það eru þeir sem ráða fjármálum Matvælastofnunar sem taka ákvörðun um fjárútlát,“ segir Aðalsteinn, en aftur á móti hafi það komið til umræðu innan stofnunarinnar.

Ríkisbatteríið skorti úrræði

„Það eru allir fullir af vilja, og vilja aðstoða með þetta, en það er engin sanngirni í þessu að við séum með batterí sem heitir MAST, sem er ríkisbatterí, að það leggi þetta á einstaklinga,“ segir Arndís.

Mikil kostnaður fylgir því að koma dýrunum til bjargar og fellur til ýmis kostnaður. Dýralæknar hafa þó komið til móts við félagið og einstaklingar lagt sitt af mörkum en ekki sé hægt að ætlast til þess að samtökin greiði annan kostnað úr eigin vasa.

Arndís ítrekar þó að þau hafi verið í sambandi við yndislegt fólk innan MAST sem vilji allt fyrir kettina gera. Það skorti hins vegar að til séu viðbragðsáætlanir þegar mál sem þessi koma upp og úr því þurfi að bæta. „Það er það sem er svo ótrúlegt því að MAST er ekki nýtt fyrirbæri,“ segir Arndís en efast þó ekki um að starfsfólk Matvælastofnunar vilji dýrunum einnig það besta.

Frek­ari upp­lýs­ing­ar um Villiketti og hvernig styðja má starfið má finna með því að smella hér.

Hægt er að styrkja fé­lagið í gegn­um reikn­ings­núm­erið: 0111-26-73030 og kenni­tölu: 710314-1790.

Fé­lagið Villikett­ir hef­ur komið sér upp litl­um kofa þar sem …
Fé­lagið Villikett­ir hef­ur komið sér upp litl­um kofa þar sem hægt er að hlúa að kött­un­um og venja þá á hefðbundið heim­il­is­líf. Félagið hefur þó takmarkað rými til að sinna köttunum. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert