„Ekki aflífa kisurnar“

Kettirnir skipta fleiri tugum og hafa búið við bágar aðstæður …
Kettirnir skipta fleiri tugum og hafa búið við bágar aðstæður í einu og sama húsinu. mbl.is

Sett hefur verið af stað undirskriftasöfnun þar sem skorað er á Matvælastofnun að lóga ekki fjölda katta sem búa við bágar aðstæður í einu og sama hús­næðinu. mbl.is hefur fjallað um málið í vikunni.

Frétt mbl.is: Verður öllum lógað

Það var Vilborg Norðdahl sem setti söfnunina af stað en þegar þetta er skrifað hafa yfir 830 manns skrifað undir. Er aðeins þrjár klukkustundir voru liðnar af söfnuninni höfðu 450 þegar skrifað undir áskorunina. 

Dýraverndunarfélagið Villikettir hefur borið upp tillögu við MAST í von um að ekki þurfi að lóga dýrunum. Undirskriftasöfnunin fer fram undir nafninu „EKKI AFLÍFA DÝRIN“ þar sem skorað er á MAST að ganga að tillögu Villikatta.

Áskorunin, sem má skrifa undir hér, hljóðar á þessa leið:

„Við undirrituð skorum á MAST að ganga að tilboði villikettir.is um lausn á vandamálinu varðandi þessa ketti og lóga þeim ekki.

Tillaga Villikatta

Við bjóðumst til að taka að okkur allar læður með kettlinga hið fyrsta og finna þeim fósturheimili og síðar varanleg heimili.
Við bjóðumst til að taka veik dýr og koma þeim til læknis strax ef þörf er á.
Við bjóðumst til að láta gelda/taka úr sambandi allar kisur sem eftir eru á staðnum til að koma í veg fyrir meiri fjölgun og skila þeim síðan aftur á staðinn og hafa milligöngu um að finna þeim dýrum varanleg ný heimili.
Við bjóðumst til að útvega mat og sand fyrir þau dýr sem eftir eru á heimilinu og sjá til þess að þau fái læknisþjónustu ef þörf er á.
Við óskum eftir að Elín starfsmaður hjá MAST hafi eftirlit með aðgerðum og þið séuð inni í því hvernig staðan er hverju sinni.

<em>Í staðinn óskum við eftir að MAST fresti aflífun þessara dýra og jafnframt að MAST greiði til félagsins Villikatta styrk sem myndi nýtast í þetta verkefni sem annars hefði farið í að greiða meindýraeyði fyrir að aflífa öll þessi 116 dýr.</em>

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert