Bréf Samkeppniseftirlitsins leiðbeinandi

Samkeppniseftirlitið segir bréf sitt til Kaffitárs hafa verið leiðbeinandi og …
Samkeppniseftirlitið segir bréf sitt til Kaffitárs hafa verið leiðbeinandi og að niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur standi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samkeppniseftirlitið segir bréf sitt til Kaffitárs, þar sem það lýsti áhyggjum sínum af niðurstöðu héraðsdóms, um að Isavia bæri að af­henda Kaffitári upp­lýs­ing­ar varðandi útboð á versl­un­ar­rými í Leifs­stöð, einungis hafa verið leiðbeinandi fyrir aðila málsins.

Frétt mbl.is: Óttast lögbrot með afhendingu gagna

Líkt og greint hefur verið frá afhenti Isavia Kaffitári gögn í morgun, sem síðarnefnda fyrirtækið hafði óskað eftir og varða samkeppni um verslunarrými í Leifsstöð. Héraðsdómur Reykjavíkur hafði staðfest úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál þess efnis að Isavia bæri að afhenda Kaffitári gögnin.

Aðalheiður Héðinsdóttir, forstjóri Kaffitárs, segir Isavia hafa afhent gögnin á skrifstofu Kaffitárs um klukkan átta í morgun, en fyrirtaka hafði verið boðuð hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu klukkan níu.

Frétt mbl.is: Isavia afhenti Kaffitári gögnin

Í síðustu viku sendi Samkeppniseftirlitið Kaffitári bréf, þar sem það varaði við því að móttaka gagnanna gæti brotið gegn ákvæðum samkeppnislaga. Geir Gestsson, lögmaður Kaffitárs, segir í viðtali við Morgunblaðið í dag að bréf Samkeppniseftirlitsins veki „mjög áleitnar spurningar um þrískiptingu ríkisvaldsins.“

Þá sendi Kaffitár Samkeppniseftirlitinu bréf í gær, þar sem spurt var hvort Samkeppniseftirlitið teldi sig hafa valdheimild til að hlutast til um niðurstöður dómstóla eftir á. Kaffitári barst svar í dag, þar sem segir að Samkeppniseftirlitið hafi engin áhrif á þá formlegu skyldu til miðlunar upplýsinga sem lögð hafi verið á aðila með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, enda hafi fyrra bréf þeirra einungis falið í sér leiðbeiningu til aðila málsins. Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur standi því.

Kaffitár hefur nú eina viku til að gera athugasemd við gögnin, telji það eitthvað vanta í þau.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka