Verði færðir undan kjararáði

mbl.is/Ernir

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur birt til umsagnar drög að lagafrumvarpi um kjararáð. Með frumvarpinu er stefnt að því að fækka þeim verulega sem kjararáð ákvarðar laun og önnur starfskjör.

Markmiðið er annars vegar að fjölga þeim aftur sem taka laun samkvæmt samningum á venjulegan hátt og hins vegar að þeir sem ekki geta samið um laun á venjulegan hátt vegna eðlis starfanna hafi meiri aðkomu að málum þegar ákvarðanir eru teknar um laun og starfskjör þeirra en nú.

Með frumvarpinu er lagt til að það verði eingöngu verkefni kjararáðs að ákvarða laun og starfskjör þjóðkjörinna manna, dómara, saksóknara, allra ráðherra, ráðuneytisstjóra, þeirra skrifstofustjóra, sem heyra undir ráðherra og fara með starfsmannamál ríkisins og fyrirsvar fyrir hönd ráðherra við gerð kjarasamninga, aðstoðarseðlabankastjóra og ríkissáttasemjara.

Kjör skrifstofustjóra í stjórnarráði Íslands taki mið af kjarasamningum á hefðbundinn hátt.

Kjör framkvæmdastjóra hlutafélaga og annarra einkaréttarlegra félaga í meirihlutaeigu ríkisins verði í höndum viðeigandi stjórna þar sem stjórnin semur um laun og starfskjör framkvæmdastjóra á grundvelli starfskjarastefnu félagsins og settrar eigendastefnu ríkisins í félögum.

Ákvörðun kjara biskups, vígslubiskupa, prófasta og presta þjóðkirkjunnar ráðist af samningum innan þjóðkirkjunnar en fari ekki eftir ákvörðun kjararáðs, náist um það samkomulag milli ríkisins og þjóðkirkjunnar.

Sjá frétt á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert