Bjarndýr var fellt við bæinn Hvalnes á Skaga á tólfta tímanum í gærkvöldi, skömmu eftir að heimafólk sá fyrst til dýrsins, sem reyndist vera stálpuð birna. Lögreglunni á Sauðárkróki var tilkynnt um bjarndýrið upp úr kl. 22 og í kjölfarið var kölluð til skytta til að fella dýrið, líkt og verkreglur segja til um.
„Dýrið fór hratt um og gekk meðfram girðingunni fram og til baka og fór síðan upp á höfðann. Var þar um stund. Svo þegar það sá hrossin þá sperrti það sig. Síðan stóð birnan upp á hólnum og þá fattaði ég endanlega að þetta væri ekki rolla þegar hún stóð á tveimur fótum,“ segir Egill Bjarnason, sem var í útreiðartúr skammt fyrir ofan Hvalnes þegar hann sá bjarndýrið á Hvalneshöfða, niður undir sjó, um 500 metra frá bænum. Lét hann föður sinn og aðra í fjölskyldunni vita heima á bænum og lögreglu var strax tilkynnt um þessa sjón. Fólk á nærliggjandi bæjum var einnig látið vita og sagt að halda sig innandyra á meðan aðgerðir stæðu yfir. Skammt er á næstu bæi, Lágmúla og Kleif.
Skotin á 130 metra færi í hálsinn
Jón Sigurjónsson frá Garði í Hegranesi, vön skytta, var kvaddur á vettvang en hann tók einnig þátt í því að fella bjarndýr á Þverárfjalli í maí árið 2008. Hálfum mánuði síðar það vorið sást annað bjarndýr á Hrauni á Skaga. Jón segist aldrei hafa verið jafnfljótur út á Skaga og í kvöld.
Egill og faðir hans, Bjarni Egilsson, fóru með Jóni að bjarndýrinu, gengu meðfram fjörunni til að styggja það ekki og svo að það fyndi ekki lyktina. Þegar þeir nálguðust Hvalneshöfðann var dýrið enn á sömu slóðum. Biðu þeir þolinmóðir um stund þar til þeir voru fullvissir um að vera í skotfæri. Tók Jón þá upp byssuna og hæfði dýrið í einu skoti, beint í hálsinn. Að þeirra sögn var færið um 130 metrar. Eftir að hafa gengið úr skugga um að dýrið lægi í valnum var hafist handa við að koma því af höfðanum og heim að bænum með dráttarvél. Fyrst þurfti að bera það nokkurn spöl. Voru þá um tveir tímar liðnir frá því að fyrst sást til bjarndýrsins.
Þegar Morgunblaðið kom á vettvang um tvöleytið í nótt hafði drifið að ábúendur á næstu bæjum, forvitna að berja dýrið augum. Átta ár eru liðin síðan bjarndýr gekk þar á land, í tvígang sem fyrr segir, en þrálátar sögusagnir voru uppi um að þriðja dýrið hefði sést þar og verið fellt, en það hefur aldrei fengist staðfest.
Ein vígtönnin brotin
Bjarni Egilsson á Hvalnesi segir það hafa verið sérstakt að sjá bjarndýrið horfa stöðugt á heyrúllur á túninu og vel geti verið að það hafi talið rúllurnar vera ísjaka. Hann segir hafstrauma vera sterka út undan höfðanum og erfitt geti verið að fullyrða hvenær dýrið hafi náð landi.
Birnunni var komið fyrir í geymslu í nótt og þess beðið að starfsmenn Náttúrufræðistofnunar og Umhverfisstofnunar skoði það. Hræið er nokkuð heillegt og töldu heimamenn líklegt að það yrði stoppað upp og því komið á safn.
Jón treysti sér ekki til að segja til um aldur birnunnar, en hann sagði hana stóra og vel á sig komna. „Ein vígtönnin er brotin og það bendir til þess að hún geti verið nokkurra ára gömul. Hún hefur verið með hún því hún var sogin,“ sagði Jón við blaðamann Morgunblaðsins.
Egill segir að um leið og hann sá til dýrsins hafi enginn vafi leikið í hans huga um að fella þyrfti dýrið sem fyrst, ekki síst þar sem það var nálægt Hvalnesi og börn höfðu verið þar að leik. Einnig hafi verið mikilvægt að missa dýrið ekki til sjós aftur. Þá hafi getað orðið erfitt að finna það aftur.