„Fór ekkert á milli mála að þetta var engin kind“

Hræ birnunnar fyrir utan Náttúrufræðistofnun, þangað sem það var flutt.
Hræ birnunnar fyrir utan Náttúrufræðistofnun, þangað sem það var flutt. mbl.is/Ófeigur

Karítas Guðrúnardóttir var í útreiðartúr ásamt manni sínum, Agli Bjarnasyni, þegar þau urðu vör við ísbjörninn sem felldur var við bæinn Hvalnes á Skaga í gærkvöldi. „Við vorum að temja þegar við sáum eitthvað hvítt. Við héldum að þetta væri rolla og vorum að rökræða um hvort hún væri með eitt eða tvö lömb, því þetta var það stórt og við héldum að þau lægju öll í hnapp.“ Eitthvað fannst þeim kindurnar haga sér undarlega og námu staðar til að fylgjast með. „Þá reis birnan upp á afturlappirnar og það fór ekkert á milli mála að þetta var engin kind.“

Karítas ásamt birninum í nótt.
Karítas ásamt birninum í nótt. Mynd/Úr einkasafni

Karítas segist ekki vera viss um hversu nálægt birnunni þau voru, en hún hafi verið um 500 metra frá bænum, þar sem börn þeirra voru. Þau hafi reynt að hringja heim á bæinn, en enginn hafi svarað. „Amma þeirra og afi voru að passa þau og við brunuðum heim og komum börnunum inn og heimalningnum. Þegar við vorum að koma heim var björninn kominn nær bænum.“

„Maðurinn minn hringdi í Jón vin sinn sem er mjög góð skytta og í lögregluna, sem lét ábúendur á næstu bæjum vita.“ Nokkur tími leið þar til lögregla kom á staðinn, en Karítas segir skyttuna Jón hafa verið komna töluvert á undan lögreglunni. Það hafi verið léttir, en Karítas og Egill hafa ekki byssu á heimili sínu og hefðu því ekki getað varist birninum, hefði hann komist að bænum. „Við verjum okkur ekkert mikið með staurum eða einhverju. Við vorum síðan með fullt af dýrum úti; heimalninga og 50 hross og 600 kindur, en sumt er úti í afrétt.“

Karítas hélt sig innandyra með börnin, þriggja og sex ára, en mennirnir fylgdust með birninum til að missa hann ekki úr augsýn. „Það var aðalatriði að missa ekki sjónar á honum, því það væri vonlaust hefði hann stungið sér til sunds því þá væri ómögulegt að vita hvar hann kæmi upp aftur.“ Mikilvægt hafi verið að styggja ekki dýrið, en það gekk meðfram girðingu sem það treysti sér ekki yfir. Hins vegar var opið hlið á girðingunni, en sem betur fer gekk björninn ekki nógu langt til að koma að því.

Spurð hvernig börnunum hefði litist á ástandið segir hún þeim hafa fundist þetta spennandi, en hafi haft áhyggjur af því að heimalningarnir yrði étnir. „Þau gerðu sér kannski ekki alveg grein fyrir þessu, hafa bara séð þetta í teiknimyndum og svona. Guðrún, dóttir mín, sagði að þetta væri stærsti bangsi sem hún hefði séð.“ Þegar björninn hafði verið felldur fengu börnin síðan að skoða dýrið, en fannst hann þó heldur ógeðslegur.

Nokkur ár eru síðan annar björn gekk á land við bæinn Hraun á Skaga, sem er um 40 kílómetra frá Hvalnesi. Það virðist því sem ísbirnir sæki á svæðið og því gott að vera við öllu búinn í framtíðinni. „Maður athugar héðan í frá alla vega tvisvar hvort það sé rolla ef maður sér eitthvað hvítt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert