Ólíklegt að hvítabirnir verði fangaðir

Hræ bjarnarins, sem var felldur í gærkvöldi, fyrir utan Náttúrufræðistofnun …
Hræ bjarnarins, sem var felldur í gærkvöldi, fyrir utan Náttúrufræðistofnun í dag. mbl.is/Ófeigur

Þegar hvítabirnir ganga á land eru það lögregluyfirvöld á viðkomandi svæði sem taka ákvörðun um hvort dýrið sé fellt. Hvorki má fólk né búfénaður vera nálægt, auk þess sem skyggni verður að vera gott, til að dýr sé ekki fellt samstundis, en slík staða var ekki uppi í gær.

Kristján Þorbjörnsson, yfirlögregluþjónn lögreglunnar á Sauðárkróki, segir mat á aðstæðum í gær hafa verið auðvelt. „Aldrei vafi. Það var örstutt í byggð.“ Skytta var komin á staðinn og beið eftir lögreglu áður en hleypt var af. Umhverfisstofnun hafi verið látin vita og dýrið fellt.

Spurður hvort hætta hafi verið á ferðum bendir Kristján á að einungis nokkur hundruð metrar hafi verið í næsta bæ. Þá hafi ferðamenn slegið upp tjaldi í innan við kílómetra fjarlægð frá birninum. Ekki hafi gengið að hafa björninn á svæðinu með fólk allt í kring.

Drög til að föngunaráætlun

Ólíklegt er að hvítabirnir sem koma hingað til lands verði fangaðir lifandi, en til þess þurfa ýmis skilyrði að vera uppfyllt. Drög að föngunaráætlun hvítabjarna hafa legið fyrir í nokkur ár en áætlunin er hvorki fullkláruð né fjármögnuð.

Til að slík áætlun komi til skoðunar þarf viðkomandi lögregluyfirvald að fylgjast með birninum  og ákvarða að engin hætta stafi af dýrinu, hvorki fólk né búfénaður sé nálægt, skyggni sé gott og þyrla sem hentar verkefninu sé laus. Til stóð að svæfa dýr og fanga í júní 2008 og kom hingað til lands danskur sérfræðingur sem skjóta átti deyfilyfjum í björninn, auk þess sem ísbjarnarbúr var flutt til landsins. Daninn náði hins vegar ekki að koma sér í færi og þegar björninn stefndi til sjávar var hann aflífaður, þar sem hætta þótti á að menn misstu sjónar á dýrinu.

Skapist aðstæður til að fanga hvítabjörn er það Umhverfisstofnun sem virkjar áætlunina. Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, segir að þeir þættir sem þurfa að vera til staðar séu það hins vegar ekki nú, en hún fer fyrir viðbragðsnefnd við komu hvítabjarna, sem auk hennar er skipuð fulltrúum frá MAST, Landhelgisgæslunni og embætti ríkislögreglustjóra.

Klær bjarnarins sem felldur var í gær eru vígalegar.
Klær bjarnarins sem felldur var í gær eru vígalegar. mbl.is/Ófeigur

Segir hún nefndina sammála um að ekki komi til greina að reyna að fanga dýr líkt og gert var 2008, fyrr en allir þættir sem þurfi að vera til staðar séu það. Vita þurfi hvert flytja eigi dýrið, húsnæði þarf að vera til staðar þar sem dýrið yrði geymt, þjálfaður mannskapur verði að vera til staðar, sem og sérsveitarmaður sem hefur hlotið þjálfun í að skjóta úr þyrlu. Ísbjarnarbúrið sem nota átti 2008 er hins vegar enn á Akureyri og deyfibyssan er einnig til staðar, en Kristín telur deyfilyfin vera útrunnin, þau dugi í stuttan tíma og séu mjög dýr.

Kostnaðarsamur viðbúnaður

Kostnaður við þjálfun mannskaps og tiltæks búnaðar væri um 10 til 15 milljónir á ári, segir Kristín, jafnvel þótt aldrei yrði reynt að fanga hvítabjörn. Margir samverkandi þættir þurfa því að vera til staðar til að hægt sé að fanga hvítabirni sem leita hingað til lands.

Kristín segir aðila hafa haft samband við Umhverfisstofnun varðandi hugsanlegar leiðir til að koma fönguðum björnum í dýragarða erlendis en upphaflega hugmyndin hafi alltaf verið að fá leyfi grænlenskra stjórnvalda til að flytja birnina aftur til sinna heimaslóða, enda spurning út frá dýraverndunarsjónarmiðum hvort rétt sé að setja villta hvítabirni í dýragarða. Grænlensk stjórnvöld hafi hins vegar ekki veitt slíkt leyfi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert