Það eina rökrétta að fella hvítabirni

Bjarndýrið sem fellt var í nótt.
Bjarndýrið sem fellt var í nótt. mbl.is/Björn Jóhann

Alltaf er talin hætta af hvítabjörnum sem hingað koma til lands enda utan náttúrulegra heimkynna í umhverfi sem dýrin þekkja ekki. Það er samdóma álit þeirra sérfræðinga sem sérstakur starfshópur, sem umhverfisráðherra skipaði í júní 2008 til tillögugerðar um viðbrögð vegna hugsanlegrar landtöku hvítabjarna á Íslandi, ræddi við.

Starfshópinn skipuðu þau Hjalti J. Guðmundsson, Guðmundur A. Guðmundsson, Ólafur Jónsson og Stefán Vagn Stefánsson og var skýrsla gerð eftir að tveir hvítabirnir komu á land í Skagafirði árið 2008. Þeir voru báðir felldir en skýrsluna má sjá hér.

Eins og kunnugt er var hvítabjörn felldur á Skaga í nótt en hann var í um 500 metra fjarlægð frá mannabyggðum. Það er alltaf lögreglan sem tekur ákvörðun um hvort eigi að skjóta eða reyna að bjarga hvítabjörnum samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun.

Í skýrslu starfshópsins segir að í flestum tilfellum ógni hvítabirnir öryggi borgaranna hér á landi, þeir eru langt frá sínum heimkynnum og geta því ekki farið til baka nema með hjálp eða ef þéttur ís er mjög nálægt landinu.

Engin haldbær stofnstærðarrök fyrir björgun

Í skýrslunni kemur fram að hvítabjarnaráð IUCN hafi ekki gert athugasemd við að þeir hvítabirnir sem komu hingað á land árið 2008 hafi verið felldir. Þá var rætt við fleiri sérfræðinga sem sögðu m.a. að eina rökrétta viðbragðsáætlunin hér á landi ætti að vera að fella dýrin, enda þau langt frá heimkynnum sínum, ógni öryggi og gætu mögulega verið sýkingavaldur fyrir önnur dýr hér á landi. Árið 2008 voru jafnframt engin haldbær stofnstærðarrök fyrir björgun einstakra hvítabjarna sem koma til Íslands.

„Hvítabirnir eru nýttir með sjálfbærum hætti við Grænland og í Kanada, þ.e. veiddir af innfæddum, en þau dýr sem hingað koma eru líkast til úr austur-grænlenska stofninum. Einnig má benda á að ástand hvítabjarna sem koma til landsins virðist vera nokkuð slæmt en skal skoðast í ljósi þess að þekkt er hjá þessum dýrum að vera fæðulítil og lifa á fituforða svo mánuðum skipti,“ segir í skýrslunni.

Kostnaður við björgun tugir milljóna

Í niðurstöðu skýrslunnar segir að í ljósi þeirra gagna og upplýsinga, sem starfshópurinn aflaði sér, sé skynsamlegast að fella þá hvítabirni sem hingað koma til lands. Fyrir þessu áliti eru þrenns konar meginrök nefnd, öryggissjónarmið, stofnstærðarsjónarmið og kostnaður við björgunaraðgerðir.

Í skýrslunni segir að björgunartilraunir í þessum málum séu mjög kostnaðarsamar og erfiðar í framkvæmd. „Í því ljósi má benda á að ef reyna á björgun mun það kosta þjálfun á björgunarteymi, bæði grunnþjálfun og viðhaldsþjálfun, hérlendis sem erlendis,“ segir í skýrslunni, og að til verkefnisins þurfi til að mynda þyrlu, aðkomu Landhelgisgæslunnar vegna skips og annan búnað sem slík áætlun krefst.

Bent er á þá staðreynd að ef hvítabirni er bjargað hér á landi og hann fluttur á svæði nálægt t.d. Kulusuk á veiðitíma er möguleiki á því að hann verði fljótlega skotinn enda það svæði þar sem mest er af veiðimönnum. Því þyrfti að flytja björninn langt til norðurs. Starfshópurinn reiknaði ekki út kostnað vegna þessa en ljóst er að hann mun hlaupa á tugum milljóna vegna einstaka dýrs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka