Prófkjörið sú könnun sem skiptir mestu

Ragnheiður Elín Árnadóttir ráðherra.
Ragnheiður Elín Árnadóttir ráðherra. mbl.is/Golli

„Menn nota auðvitað mismunandi aðferðir til þess að koma sér í umræðuna,“ segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, ráðherra og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, um skoðanakönnun sem stuðningsmenn Elliða Vignissonar, bæjarstjóra í Vestmannaeyjum, létu gera. Samkvæmt niðurstöðu könnunarinnar vildu 61% þeirra sem henni svöruðu að Elliði myndi leiða lista sjálfstæðismanna í kjördæminu, frekar en Ragnheiður Elín. Elliði hefur ekki tekið ákvörðun um að bjóða sig fram. 

„Ég myndi vilja vita meira um það hvernig þessi könnun var framkvæmd áður en ég fer mikið að tjá mig um hana,“ segir Ragnheiður.

„Ég hef tekið þátt í þremur prófkjörum og gert það án þess að gera kannanir fyrir fram – þau hafa öll gengið ljómandi vel. Prófkjörið verður sú könnun sem skiptir mestu máli, ég tek þátt í því og er stolt af mínum verkum á kjörtímabilinu og árangrinum hjá okkur í ríkisstjórninni. Ég er einmitt á ferð um Suðurlandið í þessum töluðu orðum og finn fyrir miklum meðbyr meðal okkar kjósenda. Hér er uppgangur í atvinnulífinu og bjartsýni ríkjandi. Sjálfstæðisflokkurinn er sterkur í kjördæminu og hefur undir minni forystu verið eitt sterkasta vígi flokksins í síðustu tvennum alþingiskosningum. Við ætlum okkur að halda þeirri stöðu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert