Synti birnan til Íslands?

Hræ bjarnarins var felldur.
Hræ bjarnarins var felldur. mbl.is/Ófeigur

Margir hafa velt því fyrir sér undanfarinn sólarhring hvernig ísbjörn sem felldur var á Skaga hafi komist hingað til lands. Sumir telja hann hafa komið á ísjaka en aðrir telja hann jafnvel hafa synt alla leiðina. Ekki er ljóst hvað hið rétta er, en mbl.is skoðaði hvort möguleiki væri fyrir ísbirni að synda þessa leið.

Frétt mbl.is: Birnan var með mjólk í spenunum

Ná allt að 10 km/klst

Í skýrslu sem unnin var fyrir umhverfisráðuneytið árið 2008 um viðbrögð vegna hugsanlegrar landtöku hvítabjarna á Íslandi kemur fram að birnirnir nái allt að 10 km/klst hraða þegar þeir synda og að þeir geti synt meira en 100 km vegalengd.

Stysta fjarlægðin á milli Íslands og Grænlands, þar sem Grænlandssund er mjóst, og að Hornströndum er um 300 km. Það má ætla að ísbirnir geti synt þá leið að því er fram kemur á Vísindavefnum, en engar staðfestar heimildir eru þó fyrir slíku sundi á milli landanna tveggja.

Fjarlægðin á milli Grænlands og sjólínunnar við Skaga, þar sem björninn sást fyrst á laugardagskvöld, er hins vegar töluvert meiri eða um 600 km.

Synti 687 km á níu dögum

Lengsta skráða sundferðalag bjarndýrs er 687 km, og tók sú sundferð níu daga. Var það árið 2011 í Beauforthafi, norður af Alaska. Vísindamenn sem voru að rannsaka birni á svæðinu sögðu björninn hafa synt í 232 klukkustundir samfleytt.

Í nýlegri rannsókn um sund bjarndýra sem unnin var af vísindamönnum frá háskólanum í Alberta í Kanada var fylgst með sundferðum ísbjarna í Beauforthafi og við Hudsonflóa. Voru lengstu sundferðirnar sem skoðaðar voru 340-404 km, en aðrar lengri ferðir voru um og yfir 100 km.

Gæti hafa farið á ísjaka

Jón Gunn­ar Ottós­son­, for­stjóri Nátt­úru­fræðistofn­un­ar Íslands, sagði í samtali við mbl.is í gær að hann teldi birnuna hafa synt gríðarlega vegalengd áður en hún kom til Íslands. „Annaðhvort hef­ur bráðnað und­an henni, hún hef­ur verið á ein­hverj­um ís­jaka, eða þá að hún gæti þess vegna hafa synt alla leið frá Græn­landi,“ sagði Jón. 

Út frá þessu er ljóst að ísbirnir hafa synt langar vegalengdir, og jafnvel jafn langa og þá sem birnan fór, en það er hins vegar afar sjaldgæft. Það er því ekki útilokað að birnan hafi synt þessa leið, en líklegra má þó teljast að hún hafi verið á ísjaka, sem hugsanlega hefur bráðnað undan henni á leiðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka