Bíða enn eftir ákvörðun MAST

Kettlingar sem sóttir voru á heimilið í síðustu viku.
Kettlingar sem sóttir voru á heimilið í síðustu viku. Ljósmynd/ Villikettir

Matvælastofnun, sem fer með dýravelferðarmál, hefur ekki brugðist við boði Villikatta um að bjarga þeim köttum sem eftir eru á hundraðskattaheimilinu á Suðurnesjum.

Upprunalega bjuggu þar yfir 100 kettir og sjö hundar við afar slæmar aðstæður en Villikettir hafa nú bjargað yfir 80 þeirra. Villikettir óttast að MAST muni lóga þeim um það bil 30 köttum sem eftir eru og hafa boðist til að gera aðstæður þeirra bærilegri, koma þeim sem þurfa undir læknishendur og hafa milligöngu um að finna þeim ný heimili. 

Til stóð að MAST myndi kynna sér aðstæður á heimilinu í gær og taka í kjölfarið ákvörðun um hvað yrði. Af því varð ekki þar sem eigandi kattanna var ekki heima. 

„Við fengum póst frá héraðsdýralækninum um að þau væru að vinna í málinu og hefðu ekki skilning á því að það væri alls staðar umfjöllun um að þau myndu aflífa dýrin. Eins var staðfest að þeim hefði borist undirskriftalisti um björgun dýranna,“ segir Arndís Björg, gjaldkeri Villikatta. „En þau hafa ekki svarað bréfinu okkar formlega enn þá.“

Villikettir vilja koma í veg fyrir að köttunum sem eftir …
Villikettir vilja koma í veg fyrir að köttunum sem eftir eru verði lógað. Ljósmynd/ Villikettir

Arndís segir ljóst að ef MAST vilji bjarga dýrum þurfi stofnunin að biðla til almennings eða sjálfstæðra dýraverndunarfélaga eftir aðstoð. Hafi félögin ekki burði til að taka á móti dýrum séu einu úrræði stofnunarinnar að lóga þeim. Það sé augljóst mál sem ekki þurfi að rökræða.

Björgunaraðgerðir Villikatta hafa verið mjög kostnaðarsamar fyrir félagið en tillaga þeirra um lausn málsins felur í sér að MAST greiði félaginu þá fjárhæð í styrk sem annars hefði þurft að kosta til við lógun dýranna.

„Það situr hjá þeim að kalla til þá aðila sem hafa verið að aðstoða og ganga út frá því að aflífa ekki dýrin og það erum við og Dýrahjálp. Þau eiga að kalla þessi tvö félög til og leita lausna en ekki fara í einhverja vörn. Þau þurfa að vera tilbúin með einhverja lausn áður en þetta gerist aftur,“ segir Arndís.

„Við bíðum bara eftir að fá viðbrögð við þessu bréfi okkar og þá hlaupum við til og gerum það sem við getum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert