Funda með ráðherrum vegna tvöföldunar

„Stopp hingað og ekki lengra!“-hópurinn fundar með tveimur ráðherrum í …
„Stopp hingað og ekki lengra!“-hópurinn fundar með tveimur ráðherrum í dag. Ljósmynd/Atli Már

„Stopp hingað og ekki lengra!“-hópurinn sem barist hefur fyrir tvöföldun Reykjanesbrautar fundar með Ólöfu Nordal innanríkisráðherra og Ragnheiði Elínu Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra og öðrum þingmanni Suðurkjördæmis, í innanríkisráðuneytinu í dag.

Í samtali við mbl.is segir Atli Már Gylfason, einn af forsprökkum hópsins, að á fundinum verði ráðherrunum afhent minnisblað þar sem úrbótum á Reykjanesvegi er skipt í tvo áfanga.

„Fyrsti áfanginn: Til þess að tryggja öryggi vegfarenda um Hafnarveg, Flugvallarveg og Aðalgötu er þess krafist að ráðist verði í framkvæmdir á hringtorgi við Aðalgötu og Flugvallarveg fyrir árslok 2016 og að vinstri beygja verði bönnuð tafarlaust af Hafnarvegi inn á Reyknesbraut,“ segir Atli Már og bætir við að í fyrsta áfanga sé þess einnig krafist að ráðist verði í nauðsynlegar viðhaldsaðgerðir á Reykjanesbrautinni.

Hjólför í vegi er sér-íslenskt fyrirbæri

„Ástand vegarins er mjög slæmt í dag. Það hefur lítið verið gert fyrir veginn frá því að hann var tvöfaldaður, í honum eru stórhættuleg hjólför sem verða enn hættulegri í rigningu og snjókomu,“ segir hann og bætir við að hjólför í vegi sé nánast sér-íslenskt fyrirbæri.

Í öðrum áfanga fer hópurinn fram á að Reykjanesbraut verði tvöfölduð frá Fitjum að Rósaselshringtorgi við Flugstöð Leifs Eiríkssonar og að því verkefni verði lokið innan fimm ára. Atli Már segir að í núgildandi samgönguáætlun sé fyrirhuguð tvöföldun Reykjanesbrautar frá Kaldárselsvegi suður í Hvassahraun og því þurfi ekki að berjast fyrir því. „Við krefjumst þess að það verði lokið við allan pakkann,“ segir hann.

Hópurinn setti í gær upp skilti við Reykjanesbrautina sem eiga að vekja athygli á hættunni sem fylgir akstri á veginum. „Á leiðinni í morgun sáum við að þau standa enn. Við finnum fyrir miklum meðbyr í þjófélaginu og á Facebook,“ segir Atli en hópinn má finna undir heitinu: „Stopp hingað og ekki lengra!“. Atli hvetur alla til þess að fylgjast með framvindu mála á samfélagsmiðlinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert